Bæði lið Hauka í úrslit deildarbikars

Sigurbergur Sveinsson      mynd: Pétur HaraldssonÍ dag fer fram undanúrslit deildarbikars Flugfélags Íslands og HSÍ en leikið er á Strandgötu. Nú hafa verið leiknir tveir leikir, tveir leikir milli Hauka og Vals. Fyrri leikurinn, sem hófst klukkan 12.00, var á milli kvennaliða félaganna og síðari leikurinn, sem hófst klukkan 14.00, var á milli karlaliða félaganna.
 
Í leik kvennaliðanna sigraði lið Vals og í leik karlaliðanna voru það leikmenn Hauka sem báru sigur úr bítum. Hins vegar hefur framkvæmdastjóri HSÍ dæmt kvennaliði Hauka 10-0 sigur þar sem lið Vals notaðist við ólöglegan leikmann.
 
Bæði lið Hauka leika því til úrslita deildarbikars Flugfélags Íslands og HSÍ á morgun, en leikirnir fara fram klukkan 18.00 og 20.00 í Íþróttahúsinu við Strandgötu. 

 

Það voru Haukastelpur sem hófu leikinn mun betur og náðu fljótlega góðri forystu. Liðið komst í 5-1 en þá tók Stefán Arnarson, þjálfari Vals, leikhlé. Það leikhlé blés smávægilegu lífi í lið Vals en Haukastelpur voru áfram sterkari aðilinn í leiknum. Í stöðunni 9-6, Haukum í vil, er hins vegar eins og lið Hauka hafi sprungið og náðu Valsstúlkur að jafna og komast yfir. Staðan í hálfleik var 15-14, Valsstúlkum í vil.

 

Líkt var og Haukastúlku hafi ekki mætt til leiks í síðari hálfleik en þá keyrði lið Vals hreinlega yfir það. Þær náðu fljótlega góðri forystu og staðan breyttist úr 15-14 í hálfleik í 21-17 og síðar 29-21. Svo fór að lokum að Valur fagnaði sigri 31-26.

Markahæst í liði Hauka var Ramune Pekarskyte með 10 mörk en Erna Þráinsdóttir skoraði 8. Hjá Val var það Hrafnhildur Skúladóttir sem var atkvæðamest med 11 mörk.

Stjórn HSÍ var bent á að lið Vals notaði ólöglegan leikmann í leiknum en Nína Kristín Björnsdóttir var í leikmannahópi liðsins. Nína er með gildandi leikmannasamning við Hauka og þar sem lokað er fyrir félagaskipti til 7. janúar n.k. er Nína ekki lögleg í liði Vals fyrr en í fyrsta lagi þá. Framkvæmdastjóri HSÍ sá sér ekki annað fært en að úrskurða liði Hauka 10-0 sigur og munu þær því leika til úrslita gegn annað hvort Stjörnunni eða Fram á morgun klukkan 20.00. Stjarnan og Fram eigast við í undanúrslitum klukkan 18.00 í dag. 

 
Leikur karlaliða Hauka og Vals byrjaði nokkuð jafn og skiptust liðin á að skora. Leikurinn var í járnum þar til í stöðunni 10-10, en þá tókst Haukamönnum að skora þrjú mörk í röð og breyta stöðunni í 13-10, stöðu sem Haukamenn kunna vel við. Haukar héldu uppteknum hætti til loka fyrri hálfleiks og í hálfleik var staðan 15-12.
 
Í upphafi síðari hálfleiks juku Haukamenn forystuna jafnt og þétt en allir leikmenn Hauka léku mjög vel. Haukar báru svo sigur úr bítum 29-22 og leika því til úrslita á morgun klukkan 18.00, gegn annað hvort Akureyri eða FH. Akureyri og FH eigast nú við í undanúrslitum.
 
Markahæstur í liði Hauka var Sigurbergur Sveinsson með 8 mörk en þeir Þórður Rafn Guðmundsson og Björgvin Hólmgeirsson skoruðu 5 mörk hvor. Hjá Val voru það Atli Már Báruson og Árni Alexander Baldvinsson sem voru atkvæðamestir, skoruðu 5 mörk hvor.  
 
Við munum koma með fréttir af því hvaða liðum lið Hauka mæta í úrslitaleikjunum á morgun um leið og fréttir berast.