Arnar Steinn bjargvættur

Í gærkvöldi sóttu okkar menn Njarðvíkinga heim í leik sem var gífurlega þýðingarmikill fyrir bæði lið, svokallaður sex stiga leikur. Daníel Karlsson markvörður spilaði sinn fyrsta deildarleik með Haukum, en Jöri er floginn til Bandaríkjanna til náms.

Lið Hauka: Daníel K.; Davíð, Darri, Pétur, Óli Jón; Hilmar Geir (Goran), Edilon (Hilmar Trausti), Kristján Ómar, Ryan; Arnar, Ómar Karl.

Það voru heimamenn sem byrjuðu leikinn betur og voru ívið betri aðilinn í fyrri hálfleik. Það skilaði sér í marki á 24.mínútu og það mark skildi liðin að í hálfleik.

Það var mun beittara Hauka-lið sem mætti til leiks í seinni hálfleik. Eftir einungis sjö mínútna leik voru okkar menn búnir að jafna leikinn. Var þar að verki Arnar Steinn sem gerði mjög gott mark eftir fallega sókn.
Eftir þetta bjuggust flestir við að Haukar myndu bæta enn frekar í og klára leikinn. Edilon fékk t.d. úrvalsfæri skömmu eftir markið en markvörður heimamanna gerði vel í því að verja.

Það voru þó heimamenn sem skoruðu næsta mark leiksins. Það mark kom tæpum tíu mínútum fyrir leikslok og var nú heldur slysalegt.

Okkar menn létu þetta þó ekki slá sig út af laginu og liðið sýndi gífurlegan karakter með því að ná að jafna leikinn öðru sinni, og aftur var það Arnar Steinn á ferðinni og kom markið á lokamínútu leiksins, glæsilegur leikur hjá Arnari.
Úrslit leiksins 2-2.

Þrátt fyrir allt verða þetta að teljast viðunandi úrslit, þó svo að sigur hefði verið æskilegur. Liðið er loksins komið úr neðsta sætinu, þó svo að Stjarnan eigi einn leik á okkur. Með sigri á Völsungi á laugardaginn eftir rúma viku opnast mjög góður möguleiki á að koma liðinu í mun þægilegri stöðu meðal neðstu liðanna í deildinni. Það er ljóst að í þeim leik verða allir að leggjast á eitt og styðja við bakið á liðinu.
Leikurinn fer fram laugardaginn 28.ágúst kl. 16:00 á Ásvöllum.

Áfram Haukar.