Afturelding – Haukar á föstudaginn – Haukar eru á toppnum

Þá er komið að 3.umferð 1.deildar karla sem hefst í dag, fimmtudag, Haukar leika hins vegar á morgun, föstudag gegn Aftureldingu í Mosfellsbænum en þeir eru nýliðar í deildinni. Leikurinn hefst kl. 20:00.

 

Liðin mættust síðast í Íslandsmóti árið 2007 þegar liðin léku í 2.deildinni, Haukar unnu þá báða leikina, þann fyrri 1-2 í Mosfellsbænum og þann seinni 3-1 á Ásvöllum. Það ár fóru Haukarnir upp um deild en Afturelding þurftu að bíða í eitt ár í viðbót til að komast upp.

Haukar eru á toppnum í deildinni eftir fyrstu tvær umferðirnar en Mosfellingar sitja í 7.sætinu. Haukar hafa unnið fyrstu tvo leiki sína í deildinni fyrri gegn Leikni frá Reykjavík og seinni gegn Fjarðarbyggð. Mosfellingar sigruðu leik sinn í fyrstu umferð gegn Fjarðarbyggð 1-0 en sigurmarkið kom úr vítaspyrnu en þeir töpuðu hinsvegar 3-1 fyrir Víkingi Ólafsvík í annari umferð á Ólafsvík.

Allir leikmenn Hauka ættu að vera heilir en Kristinn Þór Garðarson, varamarkvörður, kemur líklega inn í leikmannahóp Hauka fyrir leikinn á morgun en hann hefur verið að jafna sig á meiðslum.

Veðrið á Íslandi hefur verið dásamlegt undanfarna daga og ætti að vera lítil breyting þar á fyrir leikinn á föstudaginn. Það er þó aldrei að vita nema rigningin mæti aðeins til leiks en þá í litlu magni.

Við hvetjum alla Haukamenn að mæta og styðja okkar menn í Mosfellsbænum á föstudaginn. Áfram Haukar!

Mynd: Siggi „snákur“ verður að vanda á sínum stað á bekknum á föstudaginn.