Afburðanemendur í Haukum

Haukar eiga ekki bara á að skipa besta liðinu á landinu í meistaraflokki kvenna, heldur eru þær einnig bráðgáfaðar.  Í síðustu viku útskrifaðist María Lind Sigurðardóttir frá Kvennaskólanum í Reykjavík með meðaleinkun upp á 9,61.  Hún var að sjálfsögðu dúx skólans og fékk meðal annars 10 á öllum lokaprófum ársins.  En María Lind er ekki bara afburðanemandi, hún er líka að læra á píanó og spila með Haukum í körfunni.

En þær eru fleiri sem gerðu það gott því Kristín Fjóla Reynisdóttir var dúx Flensborgarskólans síðasta laugardag eftir þriggja ára nám.  Meðaleinkun Kristínar Fjólu var tæplega 9,4.  Hún hlaut 7 viðurkenningar fyrir góðan árangur í hinum ýmsu fögum og ekki laust við að töluverðan styrk hafi þurft til að halda á bókastaflanum, enda útskrifaðist Kristín Fjóla af Náttúrufræðibraut – íþróttaafrekssviði þar sem blandað er saman námi og íþróttum, eins og t.d. körfubolta.

Þessi frábæri árangur stúlknanna sýnir svo ekki verði um villst að það er engin ástæða til að velja á milli náms og íþrótta, það er hægt að stunda þetta samhliða ef vilji, metnaður og gott skipulag er til staðar.

Við óskum þeim innilega til hamingju með von um bjarta framtíð innan vallar og utan.

Áfram Haukar