Aðalfundir

Aðalfundur handknattleiksdeildar Hauka var haldinn á Ásvöllum s.l. laugardag. Þar bar helst til tíðinda að hinn “ástkæri” formaður okkar Þorgeir Haraldsson, gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Við formennsku tók Eiður Arnarson, sem verið hefur varaformaður undanfarin ár. Án nokkurs efa mun hann stýra deildinni af myndarskap næstu árin eða áratugi, (hér kemur enginn og stoppar stutt !!!) og með góðri aðstoð hinnar stóru og öflugu stjórnar mun deildin halda áfram sínu góða starfi.

Að öðrum ólöstuðum hefur Þorgeir Haraldsson verið drifkraftur deildarinnar og unnið ómetanlegt starf síðustu áratugi. Hann settist fyrst í stjórn 1973 og var til 1976, síðan var hann formaður 1981 til 1983, varaformaður 1987 til 1989 og árið 1989 tók hann við formennsku á ný og hefur stýrt deildinni óslitið síðan. Að sjálfsögðu hafa margir góðir menn og konur komið að starfi deildarinnar og margir hverjir starfað í áratugi og eru ennþá að, en í öllum hópum verður að vera góður leiðtogi og það hefur Þorgeir svo sannarlega verið. Við þökkum Þorgeiri kærlega fyrir allt og allt.

Þó Þorgeir sé “farinn” frá okkur, fór hann ekki langt, bara í næsta herbergi, en á aðalfundi félagsins sem haldinn var í kvöld var hann kosinn formaður félagsins, þ.e. Knattspyrnufélagsins Hauka. Við í handboltanum vitum hvað Þorgeir er megnugur um og frábært að félagið okkar fái notið krafta hans sem formanns.

Fráfarandi formaður félagsins til rúmlega 10 ára, Lúðvík Geirsson gaf ekki kost á sér áfram og þökkum við í handknattleiksdeildinni Lúðvík fyrir frábært starf í þágu félagsins. Þó hann sé hættur sem formaður verður hann án efa áfram á sveimi á Ásvöllum.