9 dagar í mót – Viktor Smári Hafsteinsson

Haukar

Varnarmaðurinn nautsterki, Viktor Smári Hafsteinsson er einn af nýliðunum í meistaraflokks karla í knattspyrnu. Viktor kemur til Hauka að láni frá Keflavík þar sem hann hefur fengið nokkur tækifæri síðustu tvö sumur.

Það sem kannski fáir vita er það, að Viktor lærði að sparka í bolta í fyrsta sinn í Haukum en í kringum táningsaldurinn flutti hann ásamt fjölskyldu til Keflavíkur og hefur verið þar síðan. Það mætti því segja að Viktor sé að koma heim, í Haukana eins og svo fjölmargir leikmenn fyrir þetta tímabil.

Það styttist í að 1.deildin hefjist en fyrsti leikur Hauka í 1.deildinni er gegn Þrótti R. á útivelli. Eftir 9 daga, fimmtudaginn 9.maí. Fjórum dögum seinna mætir síðan Haukar, Víking Reykjavík í Borgunar-bikar karla.

Fyrsti heimaleikur Hauka er gegn Grindavík sem féllu úr Pepsi-deildinni, en sá leikur er föstudaginn 17.maí

Haukar.is heldur áfram að telja niður í fyrsta leik og í dag svarar Viktor Smári nokkrum spurningum, um veturinn sem senn fer að ljúka og um komandi tímabil. Einnig spyrjum við hann að því hvernig honum hefur líkað í Haukum.

Hvernig leggst tímabilið í þig? 

– Tímabilið leggst gríðarlega vel í mig. Það hafa margir gæða leikmenn bæst í hópinn í vetur. Það er því hægt að segja að við séum komnir með mjög sterkan og breiðan hóp fyrir sumarið sem er ávísun á skemmtilegt og vonandi árangursríkt sumar. 

Er ekki komin tilhlökkun að fara æfa á grasi? 

– Jú, ég er orðinn mjög spenntur að fara æfa á grasi. Við tókum smá forskot á sæluna seint í mars þegar við fórum til Spánar og æfðum þar við góðar aðstæður. Ég geri fastlega ráð fyrir því að grasið á Ásvöllum verði í þeim klassa í sumar, það hefur mér allavega verið sagt nokkrum sinnum. 

Hvernig lýst þér á að spila í 1.deildinni? 

– Mér lýst vel á að spila í 1. deildinni. Deildin er mjög sterk vill ég meina og mörg jöfn lið í deildinni. Eins og ég hef komið inná, þá er liðið okkar sterk þannig að gæðin eru ekkert verri en hjá liðum í Pepsi-deildinni. 

Hvernig hefur þér líkað í Haukum, fyrstu mánuðina? 

– Dvölin hjá Haukum hefur verið ljómandi góð. Ég kann mjög vel við mig í Haukatreyjunni.

Eitthvað sem hefur komið þér á óvart hjá hópnum og félaginu? 

– Ekki mikið, nema hvað það er óhemju mikið magn af snillingum í liðinu og ekki bara liðinu heldur liðstjórarnir líka, þeir eru magnaðir. Það er þó eitt sem er frekar leiðinlegt og það er hvað þeir yngstu gleyma oft græjunum fyrir leiki, en batnandi mönnum er víst best að lifa!