5-2 sigur Hauka gegn Álftanesi í Faxanum

Haukar sigruðu í kvöld Álftanes 5-2 í fyrsta leik sínum í Faxaflóamótinu þetta árið. Leikið var á Ásvöllum.

Hin 15 ára gamla Elín Björg Símonardóttir gerði fyrsta mark Hauka og Rún Friðriksdóttir bætti við öðru marki skömmu síðar með góðu skoti fyrir utan teig.  Álftanes minnkaði muninn og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Elín var aftur á ferðinni snemma í síðari hálfleik og kom okkar stelpum í 3-1 en aftur minnkaði Álftanes muninn.

Sæunn Björnsdóttir setti fjórða markið með flottu skoti utan teigs og Leli Halldórsdóttir bætti við fimmta marki Hauka eftir glæsilegan einleik.

Okkar stelpur voru með talsverða yfirburði í leiknum og fengu fjölda dauðafæra sem hefðu svo sannarlega mátt nýtast betur.

Næsti leikur stelpnanna er gegn ÍA en sá leikur fer fram nk. sunnudag í Akraneshöllinni og hefst klukkan 18:00.

Áfram Haukar. Félagið mitt.

Elín Björg Símonardóttir setti tvö mörk í leiknum.