3.umferðin í boðsmótinu

Mikið var um frestanir í 3. umferðinni sem fram fór 29. apríl. Aðeins 8 skákir af 12 sem fram áttu að fara voru tefldar. Nokkuð var um spennandi skákir, en þó enduðu þær allar eins og búist var við.

A-Riðill

Aðeins var ein skák tefld í þessum riðli. Nafnarnir Sverrir Örn Björnsson og Sverrir Þorgeirsson mættust í skemmtilegri skák, þar sem sá eldri virtist hafa mun betri stöðu framan af. Sá yngri náði svo að skipta upp á drottningu fyrir hrók og biskup. Svo virtist sem að skákin væri að leysast upp í jafntefli þar sem drottning Sverris Arnar var upptekin við að varna uppgangi frípeðs, en þá lék Sverrir Þ. ónákvæmum leik og kóngurinn komst í peðið. Eftirleikurinn var því auðveldur fyrir þann eldri.
Þess má geta að á þriðjudaginn vann Sverrir Þ. Halldór í frestaðri skák.
Ef að úrslitin verða eftir bókinni hér eftir, þá verður úrslitaskák milli Árna og Sverris um sæti í A-flokknum í síðustu umferðinni!

Frestuðu skákirnar eru:
Halldór-Árni
Guðmundur-Sigurbjörn

Úrslit

Sverrir Örn-Sverrir Þ: 1-0

Staðan:
Sigurbjörn 2+fr.
Sverrir Örn 2
Árni 1,5+fr.
Sverrir Þ. 1,5
Guðmundur 0+fr.
Halldór 0+fr.

B-Riðill

Þrátt fyrir að aðeins ein skák hafi farið fram, þá eru línur farnar að skýrast í þessum riðli hvað varðar A-flokkinn. Undirritaður mætti Þorvarði í mikilli stöðubaráttuskák (ég myndi ekki ráðleggja neinum að lenda í slíkri stöðu gegn Varða!) sem virtist vera í nokkru jafnvægi, en þegar til kom var riddari Þorvarðar mun sterkari en riddari Inga. Öruggur sigur hjá Þorvarði.
Frestuðu skákirnar eru:
Auðbergur-Gísli
Ragnar-Stefán

Úrslit:

Ingi-Þorvarður: 0-1

Staðan:
Þorvarður 3
Stefán Freyr 2+fr
Ingi 1
Auðbergur 0,5+fr.
Ragnar 0,5+fr.
Gísli 0+fr.

C-Riðill

Það var mikil spenna í þessum riðli fyrir umferðina. Heimir hélt uppteknum hætti og vann Pál í mjög mikilvægri skák fyrir Pál. Daníel vann Snorra í mjög skemmtilegri skák, þar sem báðir tefldu “passíft”, en á endanum vann Daníel skiptamun og staðan varð hans. Einar vann Gísla nokkuð örugglega.
Þessi riðill er enn galopinn, þó að nokkuð öruggt sé að Heimir sé kominn í A-flokkinn. Daníel á eftir að tefla við Gísla og Heimi, 1,5 vinningur í þessum skákum myndi tryggja honum sæti í A-flokki. Páll á eftir að tefla við Snorra og Einar og verður að vinna báðar til að eiga möguleika í A-flokkinn. Einar á eftir að tefla við tvo stigahæstu menn flokksins, þá Heimi og Pál, og þarf að vinna báðar til að komast í þennan margumtalaða A-flokk, en ef að hann tapar báðum þá á hann á hættu að lenda í C-flokknum. Snorri hefur teflt vel í þessu móti og á enn góðan möguleika á að komast í B-flokkinn. Hann á eftir að tefla við Pál og Gísla og þyrfti helst að vinna báðar, þó að líklegt sé að 1,5 myndi duga. Þessi riðill hefur verið erfiður fyrir Gísla og það er nokkuð ljóst að hans hlutskipti verður að tefla í C-flokknum. Hann á eftir Daníel og Snorra og getur því á endanum ráðið úrslitum í riðlinum.

Úrslit:

Einar-Gísli: 1-0
Heimir-Páll 1-0
Daníel-Snorri: 1-0

Staðan:
Heimir 3
Daníel 2,5
Páll 1,5
Einar1,5
Snorri 0,5
Gísli 0

D-Riðill

Dauðariðillinn hélt nafni með rentu þetta fimmtudagskvöld. Jóhann Helgi náði snemma góðri stöðu gegn Stefáni, sem barðist vel. Jóhann færði sér stöðuyfirburðina vel í nyt og á endanum gaf Stefán. Jón og Sigurður hafa háð marga hildina í gegnum tíðina og það sást þetta kvöld. Stutt jafntefli, þar sem hvorugur virtist vilja taka þá áhættu sem til þurfti. Skákin sem kláraðist síðast þetta kvöld var á milli Sveins og Davíðs. Sveinn hafði mun betri stöðu þegar að hann lék af sér hrók á klaufalegan hátt. Svo virtist sem að Davíð væri kominn með unna stöðu, en þá náði Sveinn að vinna skiptamun til baka og komst í stórsókn, sem endaði með því að Davíð hafði eitt peð og hrók gegn tveimur peðum og hróki Sveins. Sveinn nýtti sér reynslu sýna og útsjónarsemi í þessu endatafli og vann.
Jóhann Helgi á eftir að tefla við Sigurð og Svein og nægir 1 v. til að komast í A-flokkinn. Sigurður á eftir Jóhann og Stefán og þarf 1,5 til að vera öruggur í A-flokk. Jón á eftir að tefla við Svein og Davíð og verður að vinna báðar til að komast í A-flokkinn. Stefán á eftir Davíð og Sigurð, og þarf a.m.k. 1.v til að vera öruggur í B-flokkinn. Sveinn á eftir Jón og Jóhann Helga og þarf að vinna báðar ætli hann sér að vera öruggur í B-flokk. Svo virðist sem Davíð eigi litla möguleika í þessum ógnarsterka riðli, en hann á eftir Stefán og Jón.

Úrslit:
Jón-Sigurður: 0,5-0,5
Sveinn-Davíð: 1-0
Jóhann-Stefán: 1-0

Staðan

Jóhann 3
Sigurður 2,5
Jón 1,5
Stefán 1
Sveinn 1
Davíð 0