18 ára og hefur leikið með tveimur meistaraflokkum Hauka

Kristinn Pétursson náði þeim merkilega áfanga í kvöld að hafa leikið með tveimur meistaraflokkum Hauka, eitthvað sem þótti kannski ekki sérstakt á síðustu öld en er fáheyrt á 21. öldinni á Íslandi. Í kvöld kom Kristinn inn á í knattspyrnuleik Hauka gegn Njarðvík í Fótbolti.net mótinu en Kristinn náði því strax árið 2015 að leika þá fyrst fyrir meistaraflokks félagsins í handbolta. Líklega þurfa sögufróðir Haukamenn að kafa djúpt ofan í sögubækurnar til að finna þann leikmann sem náði þessu afreki síðast með Haukum.

Leikur Hauka í kvöld tapaðist að vísu 3-1 en gaman verður að fylgjast með framgöngu þessa fjölhæfa íþróttamanns í framtíðinni. Fjölmargir ungir leikmenn Hauka fengu að spreyta sig í leiknum og veittu góðu Njarðvíkurliði hörkukeppni út allan leikinn.