14 marka sigur Hauka á Víking

Gísli GuðmundssonÍ dag tóku Haukamenn á móti Víkingum í N1 deild karla. Leikurinn fór fram að Ásvöllum og hófst hann klukkan 16:00. Fyrir leikinn voru Haukar í 6. sæti með 3 stig en Víkingar í 8., og neðsta sæti deildarinnar, án stiga. Haukar höfðu tapað nokkuð mörgum leikjum í röð og þurftu nauðsynlega að sigra ætli þeir sér að halda Íslandsmeistaratitlinum á Ásvöllum en Víkingar þurftu einnig nauðsynlega á sigri að halda til að krækja í sín fyrstu stig. Það var því hægt að búast við að allt yrði lagt í sölurnar og varð það raunin.

Haukamenn voru sterkari aðilinn allan leikinn en Víkingar voru aldrei mjög langt á eftir. Um miðjan síðari hálfleik tóku Haukar sig saman í andlitinu og spiluðu eins og þeim einum er lagið og sigruðu að lokum með 14 mörkum, 37 – 23. Hins vegar má segja að tölurnar segi ekki alveg til um leikinn þar sem Víkingar voru töluvert betri en þær segja til um.

Það voru Haukamenn sem skoruðu fyrsta mark leiksins og var það hinn nýji landsliðsmaður Haukamanna, Kári Kristján Kristjánsson, sem skoraði það. Víkingar komust í 2-1 og var það eina skiptið í leiknum sem þeir voru yfir. Í stöðunni 3-3 skildu leiðir. Haukamenn skoruðu 4 mörk í röð og komust í 7-3. Víkingar náðu hins vegar aðeins að laga stöðuna og minnkuðu muninn aftur í 3 mörk og þannig var hún þar til Haukar voru komnir í 12 – 7. Haukar komust í 15 – 9 en Víkingar minnkuðu muninn í 15 – 13 og þá fékk Aron Kristjánsson nóg og tók leikhlé. Það skilaði þeim árangri að staðan í hálfleik var fjögurra marka forysta, 18 – 14 Haukum í vil.

Fyrri hluti síðari hálfleiks spilaðist mjög svipað og fyrri hálfleikurinn. Haukar leiddu með 5 til 8 mörkum en í stöðunni 26 – 21 urðu kaflaskil í leiknum og Haukar skoruðu fjögur mörk gegn einu Víkingsmarki og staðan orðin 30 – 22.  Haukar skoruðu svo sex síðustu mörk leiksins og sigruðu að lokum 37 – 24.

Markahæstur í liði Hauka var Sigurbergur Sveinsson með 8 mörk en Einar Örn Jónsson og Stefán Rafn Sigurmannsson, 18 ára strákur sem er að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki, skoruðu 6 mörk hvor. Kári Kristján skoraði svo 5 mörk.

Gísli Guðmundsson átti stórleik í marki Haukamanna og varði 23 skot og var hann einn af allra bestu leikmönnum leiksins.  

Hjá Víkingum var það línumaðurinn Davíð Ágústsson sem var markahæstur með 5 mörk og þeir Hreiðar Haraldsson, Óttar Filipp Pétursson og Davíð Georgsson skoruðu 3 mörk hver en sá síðast nefndi skoraði öll mörkin úr vítum.

Næsti leikur strákanna verður miðvikudaginn 5. nóvember þegar þeir heimsækja FHinga heim. Nú er stutt hlé vegna landsleikja. Við munum fjalla um leikinn gegn FH á næstunni og hita upp fyrir hann enda viljum við sjá gömlu góðu Haukar – FH stemninguna í Hafnarfirði að nýju.