11 dagar í mót – Hilmar Geir Eiðsson

Haukar

Hilmar Geir Eiðsson er einn af fjölmörgu uppöldnu leikmönnum meistaraflokks karla í knattspyrnu. Hilmar hefur undanfarin tvö ár leikið með Keflavík í Pepsi-deild karla en þar á undan hefur hann allan sína tíð spilað með Haukum. 

Nú styttist í að 1.deildin hefjist en fyrsti leikur Hauka í 1.deildinni er gegn Þrótti R. á útivelli. Eftir 11 daga, fimmtudaginn 9.maí. Fjórum dögum seinna mætir síðan Haukar, Víking Reykjavík í Borgunar-bikar karla.

Fyrsti heimaleikur Hauka er gegn Grindavík sem féllu úr Pepsi-deildinni, en sá leikur er föstudaginn 17.maí

Haukar.is heldur áfram að telja niður í fyrsta leik og í dag svarar Hilmar Geir nokkrum spurningum, um veturinn sem senn fer að ljúka og um komandi tímabil.

Nú styttist í mót, hvernig er stemningin í hópnum?

– Stemningin er alltaf mjög góð á Ásvöllum, vonandi smitast það í stúkuna. Við erum svo heppnir að eiga nóg af vitleysingum til að halda uppi fjörinu fyrir okkur hina. Það er samt ljóst að ekkert lið fer upp úr þessari deild nema með samheldni innan- og utanvallar.

Nú voru þið í vikuferð á Spáni, hvernig gekk sú ferð?

– Menn æfðu vel og skemmtu sér vel. En þetta hafði allt sinn vanagang, fínir vellir, vondur matur og gamlir sigra unga. 

Hvernig hefur staðan á meiðslum í hópnum verið að undanförnu?

 – Það er alltaf hluti af eldri leikmönnum sem missa úr nokkrar æfingar vegna meiðsla yfir undirbúningstímabilið. En af einhverri stórundarlegri ástæðu munu allir þessir menn vera í fantaformi þegar stutt er í fyrsta alvöru leik. Auk þess erum við með stóran og sterkan hóp, næga samkeppni og nokkra gæða leikmenn. Þannig að ef menn meiðast þegar í alvöruna er komið, þá höfum við nógu breiðan hóp til að ráða við það.

Hvernig leggst tímabilið í þig?

– Mjög vel, höfum vonandi fengið inn tvo sterka leikmenn rétt fyrir mót sem auka gæðin á vellinum mikið. En þegar hæfileikarnir eru orðnir þetta miklir þá snýst þetta einfaldlega meira um framlag leikmanna. Ef allir leggja sig fram og skilja sitt hlutverk, hvort sem það er fyrirliðinn eða liðstjórinn, þá eru allir vegir færir.

Er ekki eina stefna liðsins, að spila í Pepsi-deildinni 2014?

– Auðvitað og vinna deildina.