100% árangur í Höllinni um helgina!

Það hrannast niður bikarannir í Shenkerhöllina en unglingaflokkur kvenna í handbolta vann í dag bikarmeistaratitilinn eftir sigur á grönnum sínum í FH 26-25 í hörkuleik í Laugardalshöllinni.

Hauka stelpurnar voru með yfirhöndina allan leikinn og leiddu með 1 til 4 mörkum allan leikinn en þær höfðu yfir í hálfleik 14-11. FH byrjaði seinni hálfleikinn vel og tók það Haukastelpur langan tíma að skora sitt fyrsta mark í hálfleiknum en það kom eftir tæplega 10 mínútna leik en sem betur fer var vörnin góð og náðu þær að halda FH fyrir aftan sig og innbyrtu að lokum sigur 26-25 en það var FH sem skoraði síðasta mark leiksins og sigur Hauka því nánast aldrei í hættu.

Atkvæðamestar Hauka stelpna voru þær Viktoría Valdimarsdóttir og Gunnhildur Pétursdóttir. Auk þess átti Tinna Húnbjörg góðan leik í markinu og var valin leikmaður leiksins að honum lokum.

Þessi titill er því þriðji bikarmeistaratitill Hauka um helgina og sá annar í handboltanum. Við óskum stelpunum til hamingju með titilinn og ljóst er því að framtíðin er björt.