10. kvenna: Ferðasaga

10. flokkur kvenna hélt til Sauðárkróks á dögunum og stóð sig með stakri prýði. Hanna S. Hálfdanardóttir tók saman smá pistil um ferð þeirra þangað.

10.flokkur kvenna í körfubolta skellti sér til Sauðarkróks í C riðli.  Ferðin hófst með hittingi snemma á laugardagsmorgni klukkan 08:30 í bílaleigu Akureyrar í Skeifunni, þar voru allar ferskar og tilbúnar í slaginn. Nema við lentum í smá bílavandræðum og fengum ekki bílinn sem við vildum fyrr en klukkan 10:15 en þá lögðum við af stað. Ferðin gekk mjög vel, það var tekin ein pissu- og teygjupása í Staðarskála og þar fengum við okkur smá í gogginn.

Þegar við loksins komum á Sauðarkrók þá vorum við 15 mínútur of seinar vegna bílavandans í byrjun. Það var allt í góðu við fengum 15 mínútna upphitun og svo hófst leikurinn á móti heimaliðinu Tindastóli. Okkur gekk mjög vel í þeim leik og þrátt fyrir mikla þreytu eftir langa keyrslu þá stóðu allar sig glæsilega, liðsheildin var góð, boltinn gekk vel á milli og það voru tekin þó nokkuð mörg hraðaupphlaup. Leikurinn endaði 78 – 18 fyrir Haukum. Stelpurnar höfðu mjög gaman af að spila leikinn. Vörnin var góð og sóknin stórglæsileg (klárlega framtíðar meistaraflokksleikmenn í þessum hópi ;)), stigaskorið dreifðist mjög jafnt yfir hópinn þær stigahæstu voru Margrét Rósa með 20 stig, Dagbjört með 17 stig og Lovísa með 10 stig.

Liðið fékk síðan stutta pásu eftir þann leik og svo var það leikur á móti UMFH (flúðastelpum). Leikurinn var mjög jafn í byrjun en svo sigu Haukarnir hægt og rólega fram úr þeim og endaði leikurinn 43 – 26 fyrir Haukaskvísunum. Þær stigahæstu voru Margrét Rósa með 18 stig, Dagbjört með 10 stig og Kristjana með 7 stig.

Dagurinn gekk mjög vel og er ég sátt með skvísurnar, stóðu sig allar með stakri prýði. Allar fengu að fara inn á og nýttu sínar mínútur vel. Síðan eftir leikinn skelltum við dótinu inn í Árskóla og fengum okkur glimrandi góða pizzu og risa franskar í Ólafshúsi, mælum með því að þið skellið ykkur á staðinn ef þið eruð þarna í grendinni. Síðan fóru augnlokin að síga niður hjá skvísunum og við fórum aftur í skólann og þar var spilað á spil, hlustað á tónlist og lært. Edda var DJ ferðarinnar og þökkum við henni góð störf.

Síðan var það kvöldvakan; Andrea, Dagbjört, Guðrún og Margrét sýndu okkur leikritið „aggabaggaha“ við góðar undirtektir. Edda var með skemmtilegan spurningaleik. Síðan var farið í actionary þar sem Lovísa skrifaði nokkur orð á miða. Það var spjallað saman rétt fyrir svefninn um drauga- og ljóskusögur og þess má geta að þó Lovísa sé ljóska ferðarinnar þá átti þjálfarinn sín augnablik. Má þar nefna þegar Hanna þurfti að opna skólann með lyklinum en gat það ekki svo kom Edda lyklasnellingur og sneri lyklinum í hina áttina. Andrea komst líka á blað vegna þessa ummæla: „látið gangið vatna“ sem átti að vera látið vatnið ganga (vorum með vatn í könnu á pizzustaðnum).

Næsta morgun eftir mikið sprell og skemmtilegheit þá var tekið allt saman og sett í ferðabílinn og farið í íþróttahúsið þar sem keppni hófst aftur gegn sömu liðum. Stelpunum gekk mjög vel á móti Tindastóli og unnu þann leik 80 – 12 þar sem sigahæstu leikmenn voru: Margrét með 32 stig, Dagbjört með 19 stig, Lovísa með 14 stig og Guðrún með 8 stig. Seinni leikurinn móti Hrunamönnum var jafn, það var ekki mikið skorað og endaði leikurinn 35 – 29 þar sem Margrét skoraði 10 stig, Dagbjört 9 sitg, Andrea 8 stig og Eydís 4 stig. Eftir leikinn var farið í bakaríið og keypt sér kræsingar í gogginn enda flestar spenntar fyrir því að fá sér eitthvað óhollt. Síðan var lagt af stað heim eftir vel heppnaða helgi.

Liðið samanstóð af Andreu Fanney Harðardóttir, Dagbjörtu Samúelsdóttir, Eydís Steingrímsdóttir, Freydís Rut Árnadóttir, Guðrún Þóra Sigurðardóttir, Hrafnhildur Edda Magnúsdóttir, Kristjana Ósk Ægisdóttir, Lovísa Björt Henningsdóttir, Margrét Rósa Hálfdanardóttir. Þjálfari stúlkanna er Hanna Sesselja Hálfdanardóttir og aðstoðarþjálfari helgarinnar og maður mótsins var Halldóra Helgadóttir enda stóð hún sig með stakri prýði í keyrslu og öllum undirbúningi.

Takk fyrir okkur

Áfram Haukar

Hanna S. Hálfdanardóttir.