1-0 sigur í fyrsta heimaleik sumarsins.

1. deild karla. Ásvellir 28. maí 2005.

Lið Hauka

Krókódíllinn –

Svavar S, Óli Jón, Daníel,Geoff Miles –

Betim (Hilmar Geir) , Kristján Ómar, Hilmar Trausti, Birgir Rafn (Ómar Karl) –

Hilmar Rafn (Arnar Steinn), Rodney Perry.

Fyrir leikinn bauð stuðningsmannaklúbburinn upp á léttar kaffiveitingar þar sem bæjarstjórinn Lúðvík Geirson hélt stutta tölu, sem og ræddi þjálfarinn Daði Dervic um leik dagsins og tilkynnti byrjunarliðið.

Nokkrar breytingar voru á byrjunarliðinu frá leiknum gegn HK. Jörundur, Geoff Miles & Birgir Rafn komu inn í liðið á kostnað þeirra Amirs, Hilmar Geirs og Davíð Ellerts. Betim Haxhiajdini var svo færður yfir á hægri kantinn.

Strax á 3 mínútu átti Hilmar Rafn gott tækifæri á að koma okkar mönnum yfir. Hann náði að setja boltann fyrir sig, en stýrði hinsvegar boltann rétt framhjá vinstri stöng Völsungs marksins.

Eina mark leiksins kom um miðjan fyrri hálfleikinn. Eftir misheppnaða skottilraun úr aukaspyrnu Hauka barst knötturinn á vinstri vænginn þar sem Hilmar Trausti lúrði. Fékk hann nægan tíma til að senda knöttinn fyrir markið þar sem Hilmar Rafn var réttur maður á réttum stað og náði að stinga sér fram og stýra boltanum með höfðinu í markið. Sannarlega glæsilegt mark.

Þegar líða fór á leikinn fóru gestirnir að leggja æ meiri þunga á sóknarleik sinn. Fyrir vikið skildu þeir eftir opin svæði í varnarleik sínum. Nokkrum sinnum gleymdist Hilmar Geir á vængnum og var nálægt því að auka forskot Hauka. Átti hann m.a. skot er hafnaði í þverslá Völsungs, sem og nokkur hættuleg hlaup er hæglega hefðu getað endað sem marki.

Á seinustu mínútu leiksins komust Völsungar í mjög álitlegt færi, en sem betur fer brást sóknarmanni Húsavíkur liðsins hrapalega, og endaði knötturinn í hönskum Jörundar í markinu við mikinn létti flestra í brekkunni. Fyrsti sigur hins unga Haukaliðs á þessu sumri er því staðreynd.

Þrátt fyrir aðeins eitt mark var hér þó um nokkuð líflegan og skemmtilegan leik að ræða, og hefðu mörkin hæglega getað orðið fleiri.

Maður leiksins að þessu sinni var Hilmar. Eiga þeir allir klárlega mikla framtíð fyrir sér í boltanum.