Þróttur R. og Haukar mætast á fimmtudaginn – Stuðningsmenn hita upp á English Pub

Næsti leikur Hauka í 1.deild karla er næstkomandi fimmtudagskvöld klukkan 20:00 á Valbjarnarvelli, er liðið heimsækir Þróttara heim. Liðin hafa byrjað mótið misvel og sitja á sitthvorum enda deildarinnar, Haukar eru á toppi deildarinnar með sjö stig, jafn mörg stig og Víkingur Ólafsvík. Á meðan eru Þróttarar í því neðsta með eitt stig, jafn mörg og Reykjavíkur Leiknir.

Haukar hafa enn ekki fengið á sig mark í þeim fjórum leikjum sem þeir hafa spilað í sumar, þrír deildarleikir og einn bikarleikur, frábær árangur.

Við heyrðum í Alexander Frey Sindrasyni, varnarmanni Hauka sem stóð vaktina vel í vörn Hauka í síðustu umferð, er Haukar unnu Þór 1-0 á DB Schenker-vellinum, en þar lék hann í hjarta varnarinnar ásamt Gunnlaugi Fannari Guðmundssyni en þeir báðir voru valdir í lið umferðarinnar á fótboltavefsíðunni, Fótbolti.net ásamt Sigurbirni Hreiðarssyni.

,,Stemningin í hópnum er virkilega góð og erum við fullir tilhlökkunar fyrir þessum leik. Við mætum vel stemmdir í leikinn og höfum gaman að þessu, og það mun skila inn nokkrum punktum. Við töpuðum að minnsta kosti ekki, á meðan við höldum hreinu,“ sagði Alexander Freyr sem eins og fyrr segir var í byrjunarliði Hauka í síðustu umferð, en nokkuð er um meiðsli í hóp Hauka þessa dagana.

 ,,Það eru ennþá einhverjir meiddir, en þeir fara koma inn í hópinn í næstu leikjum,“ sagði hinn kornungi en helmassaði, Alexander Freyr Sindrason sem oftar en ekki er líkt við Zac Efron.

Frá kl. 18.00 ætla stuðningsmenn Hauka að hittast á English Pub í Hafnarfirði og verður Happy Hour tilboð á staðnum – munum þó slagorðið góða; ,,Eftir einn, aki neinn“.  Einnig verður tilboð á English Pub fyrir Hauka-menn eftir leikinn. 

Við hvetjum alla Haukara til að fjölmenna á Valbjarnarvöllinn á fimmtudaginn næstkomandi klukkan 20:00.

ÁFRAM HAUKAR!