Þrír leikmenn ganga til liðs við Hauka

Frá vinstri: Hulda Sigurðardóttir, Eva Núra Abrahamsdóttir, Þórunn Sigurjónsdóttir og Jón Stefán Jónsson

Kvennaliði Hauka í knattspyrnu barst í dag mikill liðsstyrkur er þær Eva Núra Abrahamsdóttir, Hulda Sigurðardóttir og Þórunn Sigurjónsdóttir gengu í raðir Hauka frá Fylki.

Eva Núra er fædd 1994 og er bæði miðjumaður og framherji, hún á að baki 12 leiki fyrir U17 ára landslið Íslands auk fjölda leikja í Pepsí-deildinni.

Hulda er fædd 1993 og spilar bæði sem miðjumaður eða varnarmaður, hún á að baki 10 leiki fyrir U17 ára landslið Íslands.

Þórunn er fædd 1992 og er markvörður, hún hefur æft og spilað með yngri landsliðum Íslands en erfið meiðsl hafa sett strik í reikningin hjá henni sl. ár en að sjálfsögðu vonast báðir aðilar eftir að þeim kafla sé nú lokið.

 Jón Stefán Jónsson, þjálfari Hauka var að vonum sáttur við liðsstyrkinn. „Við þurfum ekki að hafa mörg orð um þann mikla styrk sem þessar stúlkur koma með í hópinn okkar. Þær eru komnar hérna til að bæta sig sem leikmenn og öðlast mikilvæga reynslu. Síðast en ekki síst koma þær til með að hjálpa okkur að taka skref fram á við með þetta lið.“

Við bjóðum þessum þremur leikmönnum hjartanlega velkomnar í hina stóru og flottu Hauka-fjölskyldu og vonum að þær eigi eftir að blómstra í Haukabúningnum. 

Hulda, Eva og Þórunn ásamt Kristjáni Arnari Ingasyni, aðstoðarþjálfara meistaraflokks. Kristján þjálfaði stúlkurnar í yngri flokkum Fylkis.