Úrslitahelgi yngri flokka KKÍ um helgina – 3 silfur

9. flokkur drengja bikarmeistariÚrslitahelgi yngri flokka KKÍ var haldin um helgina í Stykkishólmi. Haukar áttu þrjú lið sem voru að spila til úrslita um Íslandsmeistarartitil, 9. flokk drengja, stúlknaflokk og drengjaflokk. Allir þessir flokkar unnu bikarmeistaratitil á þessu ári og var því töluverð bjartsýni af hálfu Haukamanna fyrir þessari helgi.

9. flokkur drengja reið á vaðið kl. 11:00 á laugardaginn og voru tvö bestu lið landsins að spila til úrslita, Haukar – KR. Haukarnir höfðu unnið síðasta fjölliðamótið og því var búist við hörkuleik, sem var raunin. KRingar byrjuðu betur og náðu mest um 12 stiga forystu í öðrum leikhluta en Haukarnir áttu gott áhlaup fyrir hlé og náðu að minnka muninn niður í 4 stig fyrir hálfleik. Síðari hálfleikur var hnífjafn allan tímann en Haukarnir fóru dálítið illa með opin færi og fengu til að mynda fjögur hraðarupphlaup í byrjun fjórða leikhluta til að ná góðri forystu en glutruðu þeim öllum. KR náði svo undirtökunum á síðustu mínútinni og sigruðu leikinn með 3 stigum. Strákarnir börðust eins og hetjur en vantaði aðeins að klára betur opin færi. Hilmar Pétursson átti frábæran leik og var bestur Haukamanna en liðið allt spilaði góða vörn og baráttan var til fyrirmyndar. Frábær vetur hjá strákunum og ljóst er að þarna fara framtíðarleikmenn okkar Haukamanna.

Á sunnudeginum áttust við tvö lang bestu stúlknaflokks lið landsins, Haukar – Keflavík. Þessi tvö lið hafa háð harða baráttu síðustu ár og nú síðast í vetur er Haukastelpurnar sigruðu Keflavík í bikarnum í jöfnum og spennandi leik. Nú snérist dæmið við og Keflavík vann verðskuldaðan sigur.
Leikurinn var jafn og spennandi mestan hluta leiksins. Keflavík leiddi mest allan fyrri hálfleikinn með um 1-9 stigum en Haukarnir voru alltaf að ná niður muninum en vantaði alltaf herslu muninn til að komast yfir. Keflavík leiddi með 4 stigum í hálfleik og var nokkur bjartsýni hjá Hauka áhorfendum þar sem munurinn var ekki meiri og ljóst að Haukarnir áttu mikið inni. Stelpurnar byrjuðu þriðja leikhluta af miklum krafi og um miðjan leikhlutann komust þær yfir og leiddu leikinn alveg þangað til um þrjár mínutur voru eftir af fjórða leikhluta. Haukarnir náðu samt aldrei að hrista Keflvíkinga frá sér, bæði vegna slæmra sendinga í sókn og svo settu Keflvíkingar alltaf stóra þrista í bakið á okkar stelpum er munurinn var kominn í 4-5 stig. Undir lokin þá hættu stelpurnar að sækja á körfuna og Keflvíkingar gengu á lagið og náðu forystunni og bættu jafnt og þétt við hana og unnu Íslandsmeistaratitilinn.
Stelpurnar börðust vel allan leikinn en gerðu of mikið af sóknarmistökum í leiknum, slæmar sendingar og ekki nógu ákveðnar í sókninni. Dýrfinna Arnardóttir var best Haukastúlkna í leiknum en það vantaði meira framlag sóknarlega frá lykilmönnum í liðinu til að klára leikinn.  Eins og hjá 9. flokknum var veturinn nokkuð góður hjá stelpunum og þær geta borið höfuðið hátt en þær eru þegar farnar að spila stórt hlutverk í meistarflokknum.

Drengjaflokkur okkur Haukamann endaði daginn og helgina með leik á móti Grindavík/Þór Þ. Þessir strákar hafa unnið marga titla í gegnum árin og unnu í vetur bikarmeistaratitilinn og eru núverandi Íslandsmeistarar og var því nokkuð bjartsýni fyrir þennan leik og töluðu Hauka áhorfendur um það fyrir leik að nú þyrfti gullið að koma, nóg væri komið um silfur þessa helgi.
Haukarnir byrjuðu á svæðisvörn á móti sterku Grindavíkurliði og það nýttu Grindvíkingar sér og hittu ótrúlega í leiknum. Þeir settu hverja 3ja stiga körfuna niður og í hálfleik voru þeir búnir að negla niður 10 3ja stiga skotum og mörgum þeirra langt fyrir utan 3ja stiga línuna. Á meðan áttu okkar strákar í miklum vandræðum sóknarlega og hittu illa úr sínum langskotum og höfðu einungis hitt úr einu 3ja stiga skoti í hálfleiknum. Grindavík leiddi með 10 stigum í hálfleik og var í raun ótrúlegt að strákarnir væru enn inní leiknum en þeir börðust vel í vörninni.
Strákarnir byrjuðu vel í síðari hálfleik og náðu að jafna leikinn um miðbik þriðja leikhluta en þá fóru skyttur Grindvíkinga aftur af stað og nelgdu niður skotum út um allan völl og er Haukarnir fóru að spila vörnina utan þá sóttu þeir vel inn og fengu auðveldar körfur. Haukarnir voru samt aldrei langt undan en náðu samt aldrei að jafna leikinn og Grindvíkingar unnu sanngjarnan 9 stiga sigur. Grindvíkingar hittu úr 17 3ja stiga skotum í leiknum af 38 sem gera 45% nýting en Haukar aðeins úr 2 af 22 tilraunum sem gera 9% nýting. Strákarnir lögðu sig fram allan leikinn en það vantaði einhverja gleði í strákana og var eins og þeir væru sáttir við að hafa unnið bikarinn á meðan Grindvíkingar komu hungraðir til leiks. Kristján Leifur Sverrisson var besti maður Haukanna í leiknum en einnig átti Ívar Barja góða spretti. Slæm nýting fyrir utan 3ja stiga línuna var dýr í þessum leik. Strákarnir hafa staðið sig vel í vetur og framtíðin er björt.