Úrslitadagur yngri flokka í handboltanum fer fram á föstudaginn og Haukar eiga eitt lið í úrslitum

Berta Rut mynd úr 5. flokki

Berta Rut Harðardóttir varð markahæst í Haukaliðinu eftir veturinn með alls 136 mörk eða rúmlega 9 mörk að meðaltali í leik.

Næstkomandi föstudag, 1. maí, fer fram Úrslitadagur yngri flokkana í handboltanum en leikið verður í Kaplakrika. Um er að ræða 4. – 2. flokk, karla og kvenna. Haukar voru nálægt því að komast í úrslitaleikinn í 2. flokki karla, 3. flokki karla og 4. flokki karla eldri en öll liðin féllu naumlega úr leik í undanúrslitum. Eina liðið sem verður á staðnum frá Haukum er 4. flokkur kvenna yngra ár. Þetta eru stelpur fæddar 2000 og urðu þær Íslandsmeistarar í fyrra. Í vetur hafa meiðsli aðeins sett strik í reikninginn hjá liðinu en þær enduðu í 3. sæti í deildinni. Í 8 liða úrslitum slógu þær FH út eftir framlengdan leik og í 4. liða úrslitum sigruðu þær Val nokkuð örugglega á útivelli. Mótherji þeirra á föstudaginn er lið Fylkis en þær hafa verið jafnbestar í vetur og ekki tapað leik. Okkar stelpur þurfa því að eiga toppleik til að landa þeim stóra og mikilvægt að þær fái stuðning áhorfenda. Leikurinn hefst í Krikanum kl. 11.15 og vonum við að sem flestir nái að kíkja á leikinn og hvetja þær til sigurs.

Áfram Haukar!