Úrslit á fyrsta degi afmælismótsins

HaukarÍ dag hófst 100 ára afmælismót Hafnarfjarðarbæjar í handbolta. Mótið fer fram á Strandgötunni og leika Haukar þar ásamt FH, Val og Nordsjælland frá Danmörku. Í dag fóru fram tveir leiki, tveir leikir fara fram á morgun og síðustu tveir leikirnir fara fram á laugardaginn.

Fyrri leikur dagsins var leikur Vals og FH. Leikurinn var ójafn frá upphafi og fóru FHingar með sigur af hólmi, 34-22, en staðan í hálfleik var 19-12 FHingum í vil.
Síðari leikurinn var svo leikur okkar manna gegn liði Nordsjælland. Úr varð hörkuleikur þar sem ekkert var gefið eftir og spenna alveg fram á síðustu mínútu. Fóru leikar þannig að okkar strákar unnu 26-23 eftir að staðan í hálfleik var 15-10 okkar mönnum í vil.

Á morgun leika svo strákarnir okkar gegn liði Vals klukkan 18:00 og klukkan 20:00 leika Nordsjælland og FH. Við hvetjum fólk til að mæta á leikina og styðja sína menn.

Í hálfleik á fyrri leiknum í dag voru Hafnfirðingarnir í silfurliðinu á Olympíuleikunum, þeir Ásgeir Örn Hallgrímsson úr Haukum og Logi Geirsson úr FH, heiðraðir. Hafnarfjörður afhenti þeim blómvendi af þessu tilefni auk þess sem Knattspyrnufélagið Haukar gáfu Loga stórglæsilegan blómvönd auk þess að veita Ásgeiri gullstjörnu félagsins.