Öruggur sigur Grindavíkur á Haukum

HaukarLengjubikarnum er lokið þetta árið fyrir Hauka en þeir spiluðu síðasta leikinn sinn í þeirri keppni í gærkvöldi þegar að þeir mættu Grindavík suður með sjó. Fyrir leikinn var Grindavík komið áfram og því að engu að keppa öðru en að vera fyrsta liðið á þessari leiktíð til að leggja þá gulklæddu af velli en Grindavík er taplaust í öllum keppnum á þessari leiktíð.

Haukar byrjuðu af krafti og voru að hitta vel. Á móti var varnarleikur þeirra ekki upp á marga fiska og þrátt fyrir að skora ein 25 stig þá komust Grindvíkingar upp með að skora 39 stig sem er allt of mikið fyrir einn leikhluta.

Grindavík var í raun einu númeri of stórir fyrir Hauka í gær og unnu öruggan 97-71 sigur á okkar mönnum. Haukar hafa nú á stuttum tíma mætt Grindavík þrívegis og munu svo mæta gulum aftur í Poweradebikarnum helgina 9.-12. desember.

Atkvæðamestur í liði Hauka í gær var Sævar Haraldsson en hann skoraði 15 stig, gaf 7 stoðsendingar og tók 7 fráköst. Það er ánægju efni fyrir Hauka ef að Sævar kemur til með skila svona leikjum en hann hefur verið að berjast við erfið bakmeiðsli.

Chris Smith var stigahæstur Hauka með 16 stig og 9 fráköst og Davíð Páll Hermannsson gerði 14 stig.