Öflugur sigur Hauka í Breiðholti

Haukar gerðu góða ferð í Hertz hellinn í gærkvöld þegar liðið mætti ÍR í þriðju umferð Domino‘s deildar karla. Skemmst er frá því að segja að yfirburðir Haukaliðsins voru töluverðir og sigraði liðið 87-113. 

Haukar byrjuðu af miklum krafti og fór Terrence Watson fyrir liði Hauka en hann skoraði fyrstu sex stig Hauka og fjögur af þeim komu úr troðslum. ÍR-ingar spýttu þá í lófana, settu upp skotsýningu og voru að endingu komnir með 11 stiga forskot. Haukamenn kipptu sér ekki neitt sérstaklega upp við það, héldu yfirvegun og minnkuðu muninn niður í tvö stig. ÍR leiddi eftir fyrsta leikhluta með fjórum stigum, 30-24, en Kári Jónssón átti lokaskot Hauka þegar hann smellti niður skoti rétt utan við miðlínu við mikinn fögnuð Haukamanna.

Haukar tóku öll völd á vellinum eftir fyrsta leikhluta og yfirspiluðu lið ÍR. Heimamenn áttu í miklu basli með að komast í gegn um svæðisvörn Hauka sem leit ljómandi vel út löngum köflum. Í tvígang náðu ÍR-ingar að minnka muninn eftir að Haukar höfðu náð honum upp í 20 stig en alltaf komu Haukar sterkir til baka. Leikurinn endaði eins og fyrr segir 87-113 fyrir Hauka.

Terrence Watson var stigahæstur Hauka með 29 stig, 11 fráköst og 3 varin skot. Kári Jónsson setti upp sýningu fyrir áhorfendur og sallaði niður 28 stigum með 92% nýtingu og Haukur Óskarsson var með 25 stig.

Kristján Leifur Sverrisson og Hjálmar Stefánsson skoruðu sín fyrstu stig á Íslandsmóti í efstu deild og alls fengu Haukar 49 stig af bekknum. Að sama skapi komu ekki nema 6 stig af bekk íR inga.

Næsti leikur liðsins er gegn Snæfell á miðvikudaginn en spilaður verður tvíhöfði þann dag þar sem Haukar mæta einnig Snæfell í Domino‘s deild kvenna.

Tölfræði leiksins

Tengdar fréttir:
Stórsigur Hauka í Breiðholti
Ég heiti Kári og ég er mættur
Ívar: Fengum trú eftir Grindavíkurleikinn
Kári: Hef trú á skotinu mínu