Ísland vann Sviss á Ásvöllum

Íslenska kvennalandsliðið vann góðan sigur á því svissneska í fyrsta leik Evrópukeppninnar 68-53. Leikið var að Ásvöllum og voru Haukastúlkur áberandi í leik liðsins.

Helena Sverrisdóttir var allt í öllu hjá íslenska liðinu og var stigahæst-, frákasta- og stoðsendingahæst ásamt því að hún var með flesta stolna bolta.

Kristrún Sigurjónsdóttir átti einnig frábæran leik og kom inn af bekknum. Hún lét heldur betur finna fyrir sér og skoraði 14 stig þar af 12 úr þriggja-stiga skotum.

Ragna Margrét Brynjarsdóttir Haukastelpa lék einnig í leiknum en komst ekki á blað þær þrjár mínútur sem hún lék.

Næsti leikur hjá stelpunum er gegn Hollandi um helgina en næsti heimaleikur þeirra er næsta miðvikudag kl. 19:15 að Ásvöllum en þá taka þær á móti Slóveníu.

Frétt um þátt Kristrúnar í leiknum á vef KKÍ.

Mynd: Kristrún Sigurjónsdóttir á siglingu í leiknum í gærstebbi@karfan.is

stefan@haukar.is