Íþróttamaður Hafnarfjarðar

Í kvöld var Íþróttahátíð Hafnarfjarðar haldin í Íþróttahúsinu við Strandgötu. Þar var hafnfirsku íþróttafólki veittar viðurkenningar fyrir góða frammistöðu og ástundun og einnig voru heiðraðir þeir sem unnu meistaratitla á árinu 2003.
Hápunktur kvöldsins var val á Íþróttamanni Hafnarfjarðar 2003 og kom það fáum á óvart að titilinn hlaut handboltakappinn okkar frábæri, Ásgeir Örn Hallgrímsson.
Ásgeir Örn hefur staðið sig einstaklega vel með liði sínu Haukum sem urðu Deildarmeistarar og Íslandsmeistarar 2003. Á erlendri grundu stóð Ásgeir Örn sig frábærlega í Evrópukeppninni á móti erlendum stórstjörnum. Ásgeir Örn varð Evrópumeistari með unglingalandsliðinu, var fyrirliði liðsins og sá markahæsti og var valinn í lið mótsins. Þá er Ásgeir Örn í A-landsliðshópnum. Ásgeir Örn er ávallt góð fyrirmynd og sýnir íþróttamannslega framkomu utan vallar sem innan.

Innilega til hamingju Ásgeir Örn Íþróttamaður Hafnarfjarðar 2003. Við Haukar erum verulega stolt af þér.