Haukar heimsækja Wolfsburg: Spennandi æfingaferð meistaraflokks kvenna

Meistaraflokkur kvenna hjá Haukum undirbýr sig nú af kappi fyrir komandi átök í Pepsí deildinni í sumar. Áfram mun liðið, sem vann sig upp úr 1. deildinni í fyrra, verða að mestu samansett af uppöldum leikmönnum sem flestir munu stíga sín fyrstu skref í efstu deild. Eins og hjá mörgum liðum er hluti undirbúningsins fólginn í æfingaferð og að þessu sinni mun kvennalið Hauka heimsækja stórliðið Wolfsburg í Þýskalandi, en með liðinu leikur landsliðsfyrirliðinn og Hauka-konan Sara Björk Gunnarsdóttir.

Æfing með varaliði Wolfsburg og æfingaleikur

Ljóst er að um spennandi ferð er að ræða fyrir ungt og efnilegt Hauka-lið sem mun meðal annars æfa með varaliði Wolfsburg og spila æfingaleik. Einnig munu þjálfarar og starfsfólk Wolfsburg kynna æfinga-, og keppnisaðstöðu og undirbúning fyrir leiki.

Tveir leikir í Bundesligunni

Hluti af ferðinni verður síðan að sjá tvo heimaleiki í Wolfsburg, annars vegar við Darmstadt í Bundesligu karla og hins vegar leik Wolfsburg og Bayern Munchen sem er toppslagur í Bundesligu kvenna, en liðin verma tvö af þremur efstu sætum í deildinni.

Mikil eftirvænting er meðal leikmanna Hauka enda ekki á hverjum degi sem leikmenn fá að heimsækja lið í heimsklassa. Skipulagning ferðarinnar hefur gengið mjög vel, þökk sé afar góðum móttökum af hálfu forráðamanna Wolfsburg. Farið verður út upp úr miðjum mars.

0I3A1406