Hanna og Marjani semja við Hauka

Hanna María Jóhannsdóttir og Marjani Hing-Glover hafa skrifað undir samninga við knattspyrnudeild Hauka um að spila með meistaraflokki kvenna í Pepsí deildinni í sumar.

Hanna, sem spilar sem miðvörður, lék 10 leiki með Haukum í 1. deildinni á síðasta tímabili og skoraði fjögur mörk en hún missti af seinni hluta mótsins vegna náms í Bandaríkjunum sem hún lauk um sl. áramót. Hún á að baki 98 leiki í meistaraflokki í deild og bikar með Haukum og Fylki.

Hanna á að baki sjö leiki með U17 og U19 landsliðum Íslands.

Marjani, sem spilar jafnan sem framherji, gekk til liðs við Hauka í vetur en hún spilaði með Grindavík á síðasta tímabili og skoraði 15 mörk í 19 leikjum í 1. deildinni.

Marjani hefur einnig spilað með Fylki hér á landi en hún hefur alls skorað 23 mörk í 42 leikjum í deild og bikar.

Halldór Jón Garðarsson, formaður meistaraflokksráðs kvenna hjá Haukum, fagnar samningum við þær Hönnu og Marjani. ,,Báðar tvær eru afar mikilvægir og reynslumiklir leikmenn sem við væntum mikils af í Pepsí ævintýri sumarsins. Við erum með ungt lið með smá ,,dassi“ af reynslumeiri leikmönnum og við stefnum á að það virki vel í sumar.“IMG_9853