Eiður Arnar er nýr formaður knattspyrnudeildar Hauka

  • Ágústi Sindra þökkuð vel unnin störf
  • Spennandi verkefni – Topp þjálfun með vel menntuðum þjálfurum
  • Knatthús fyrir börn og unglinga verður bylting – Frábært forvarnarstarf
  • Varalið meistaraflokks karla og 2. flokkur kvenna
  • Fleiri sjálfboðaliðar innilega velkomnir

 Aðalfundur knattspyrnudeildar Hauka var haldin á dögunum og tók Eiður Arnar Pálmason við formennsku af Ágústi Sindra Karlssyni.

Ágúst Sindri hefur gegnt formennsku deildarinnar undanfarin ár og er honum þökkuð vel unnin störf en hann mun engu að síður vera okkur til halds og trausts enda mikill Hauka-maður.

Aðrir í stjórn eru Jón Björn Skúlason, varaformaður, Karl Guðmundsson, gjaldkeri, Helga Helgadóttir, ritari, Halldór Jón Garðarsson, meðstjórnandi og formaður meistaraflokksráðs kvenna, Jón Erlendsson, meðstjórnandi og formaður meistaraflokksráðs karla, Þórdís Rúriksdóttir, meðstjórnandi og formaður barna- og unglingaráðs kvenna, Brynjar Viggósson, meðstjórnandi og formaður barna- og unglingaráðs karla. Guðmundur Ólafsson, meðstjórnandi, Jóhann Unnar Sigurðsson, meðstjórnandi, Ellert Ingi Hafsteinsson, meðstjórnandi  og Þórarinn Jónas Ásgeirsson, meðstjórnandi.

Eiður Arnar Pálmason, formaður knattspyrnudeildar Hauka

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Spennandi verkefni – Topp þjálfun með vel menntuðum þjálfurum

Eiður Arnar er Akureyringur og býr á Völlunum en hann var um tíma framkvæmdastjóri Þórs á Akureyri. Hann segir spennandi tíma framundan hjá knattspyrnudeild Hauka og það sé mikil tilhlökkun hjá nýrri stjórn að takast á við verkefnið.

,,Okkar markmið eru skýr. Við ætlum okkur að eiga lið í efstu deildum hjá bæði kvenna- og karlaliðum félagsins á næstu misserum. Þá er unglingastarfið rekið með miklum myndarbrag og metnaður okkar liggur í því að bjóða börnum og unglingum upp á topp þjálfun hjá reynslumiklum og vel menntuðum þjálfurum. Það hefur meðal annars leitt til þess að fjöldi iðkenda hefur verið valinn á úrtaksæfingar hjá KSÍ og í yngri landsliðin á síðustu árum en þó skiptir afar miklu máli að hver og einn iðkandi fái að njóta sín enda á knattspyrna að vera fyrir alla!“

Knatthús fyrir börn og unglinga – Frábært forvarnarstarf

Eiður segir afar mikilvægt að knatthús rísi á Ásvöllum sem fyrst.  ,,Það verður mikil bylting fyrir Knattspyrnufélagið Haukar þar sem við munum þá geta boðið okkar iðkendum upp á bestu aðstæður allt árið um kring. Mikill fjöldi barna og unglinga býr í hverfunum í kring um félagssvæðið okkar og það er því mjög mikilvægt að við getum þjónustað alla sem best og höfum hugfast að íþróttaiðkun barna og unglinga er eitt það allra besta forvarnarstarf sem völ er á. Það er því mikilvægt að sveitarfélagið standi þétt við bakið á íþróttafélögunum og skapi þeim umhverfi sem ýtir undir þátttöku barna og unglinga í íþróttum.“

Varalið meistaraflokks karla og 2. flokkur kvenna

Í vetur stofnuðu Haukar nýtt varalið fyrir meistaraflokk karla og er tilgangurinn m.a. sá að geta boðið Haukastrákum sem eru að ganga upp úr 2. flokki tækifæri til þess að æfa og spila áfram fótbolta innan félagsins. ,,Við viljum halda iðkendum okkar sem lengst hjá okkur í stað þess að missa þá yfir í önnur félög þegar yngri flokka starfinu lýkur. Þá hefur 2. flokkur kvenna verið settur aftur á laggirnar eftir margra ára hlé sem er afrakstur öflugs kvennastarfs síðustu misserin. Það er frábært skref sem við erum afar stolt af. Þetta gefur leikmönnum tækifæri til að vaxa áfram sem leikmenn innan klúbbsins.“

Fleiri sjálfboðaliðar innilega velkomnir

Ný stjórn bindur miklar vonir við að geta stækkað Haukafjölskylduna sem starfar í kring um knattsyrnuna í félaginu.  ,,Við bjóðum alla velkomna að taka þátt í þessu gefandi starfi með okkur. Sjálfboðaliðastarf á að vera skemmtilegt en ekki kvöð og því fleiri hendur sem koma að þessu því betra og árangursríkara á allan hátt. Ég hvet áhugasama til þess að setja sig í samband við okkur með því að senda tölvupóst á eidur@haukar.is. – það verður vel tekið á móti öllum,“ segir Eiður að lokum.