Brjótum blað í sögu körfunnar

kjartanÁrangur bæði yngri flokka og meistaraflokka Hauka hefur sjaldan verið betri. Þrátt fyrir misjafnt gengi liðanna í úrslitakeppninni þá enduðu liðin í 3ja sæti Dominosdeilda KKÍ. Yngri flokkarnir blómstra undir stjórn góðra þjálfara þar sem að yngri leikmönnnum er gerð grein fyrir mikilvægi þeirra í uppgangi deildarinnar. Haukamenn eru valdir fram yfir aðra að öllu öðru óbreyttu. Haukar velja líka þjálfara með tengingar við klúbbinn frekar en leita annað. Árangurinn er byggður upp innan frá en er hvorki tekinn að láni né keyptur dýru verði!

Í gærkvöldi féll efnilegt kvennalið Hauka úr keppni í fjórðungsúrslitum Dominosdeildar KKÍ. Leikurinn stóð tæpt en reynsluleysi Haukastelpna varð þeim að falli þar sem að sterkasti maður liðsins, Lele Hardy, bar hitann og þungan af framlagi liðsins. Stelpunum var spáð 5. sæti deildarinnar en liðið endaði í því 3ja þar sem að óreyndar stelpur fylltu þau skörð sem höggvin voru í liðið síðast liðið haust. Stelpurnar og þjálfarar liðsins geta þrátt fyrir erfitt gengi á móti sterku liði Keflavíkur borið höfuðið hátt og látið sig hlakka til næsta árs þar sem að liðið verður árinu eldra. Nú þegar hefur verið hafinn undirbúningur þess að styrkja liðið enn frekar og koma liðinu þangað sem það á heima í lokaúrslitum Íslands- og bikarkeppninnar. Til hamingju Haukar með flott gengi meistaraflokks kvenna!

Í kvöld mun karlaliðið fá Skagfirðinga í heimsókn en í hugum flestra annarra en þjálfara og leikmanna liðsins var það einungis formsatriði fyrir Tindastól að klára einvígið í síðasta leik. Svo varð svo sannarlega ekki raunin þar sem að Haukamenn kjöldrógu Skagfirðingana, á þeirra eigin heimavelli. Frammi fyrir dyggum áhorfendum Tindastóls sem sælla minninga mættu með sópinn á völlinn. Það virðist hafa farið fyrir brjóstið á ungu liði Hauka sem svo sannarlega vaknaði upp af værum blundi. Í undirbúningi fyrir leikinn í kvöld þá má sjá svipaða greddu og trú í augum strákanna og þegar málum var algjörlega snúið við gegn Keflvíkingum. Oft hefur verið þörf en nú er nauðsyn að Hafnfirðingar og nærsveitarmenn fjölmenni í Schenker höllina! Málum ekki bara bæinn okkar fagra rauðan heldur brjótum blað í sögu körfunnar og snúum öðru einvíginu í röð við eftir að lið hefur lent 0-2 undir.

Áfram Haukar!

Kjartan Freyr Ásmundsson
Formaður kkd. Hauka