Tvíhöfði í Schenkerhöllinni á fimmtudaginn, stelpurnar kl. 18:00 og strákarnir kl. 20:15.

Það verður sannkölluð veisla á heimavelli Hauka, Schenker-höllinni, á fimmtudaginn þegar bæði lið meistaraflokkanna spila í Domino’s deildum sínum.

Stelpurnar ríða á vaðið og mæta Breiðablik kl. 18:00. Haukar eru sem stendur í 3. sæti deildarinnar með jafnmörg stig og Breiðablik sem er í því 6. Það er því til mikils að vinna.

Strákarnir fá topplið ÍR til sín og er því um sannkallaðan toppslag að ræða. Haukar sitja í 3. sæti deildarinnar aðeins tveimur stigum á eftir ÍR og geta því jafnað þá að stigum og gert spennuna á toppnum enn áþreifanlegri.

Það verður mikið um dýrðir en frá kl. 17:00 og fram að seinni leiknum verður búningasöludagur þar sem hægt er að máta og panta búninga, peysur, buxur og aðra hluti frá Errea.

Grillið verður að sjálfsögðu á sínum stað og verður hægt að fá sér börger í hálfleik á kvenna leiknum og svo aftur á milli leikja.

Yngri kynslóðin leiðir leikmenn meistaraflokkanna inn á völlinn og munu leikmenn skutla glaðningi upp í stúku. Í hálfleik verður svo miðjuskot þar sem verða vegleg verðlaun í boði.

Ekki láta þig vanta á þessa veislu enda stutt til jóla og síðustu forvöð að sjá Haukaliðin spila á Ásvöllum á þessu ári.

Áfram Haukar