Stefán Rafn kominn heim

Handknattleiksdeild Hauka hefur gert samning við Stefán Rafn Sigurmannsson um að snúa til baka til félagsins eftir 8 ár í atvinnumennsku. Stefán Rafn þarf vart að kynna fyrir Haukafólki en hann varð þrítugur á síðasta ári og er uppalinn í rauða Haukabúningnum en hann kemur til liðs við Hauka frá Pick Szeged.

Stefán hóf að leika með meistaraflokki Hauka árið 2007 og varð Íslandsmeistari með liðinu árin 2008, 2009 og 2010. Hann varð einnig bikarmeistari með Haukaliðinu 2010 og 2012. Stefán fór svo út í atvinnumennsku til Rhein-Neckar Löwen í desember árið 2012.

Með Rhein-Neckar Löwen vann hann EHF bikarinn á sínu fyrsta ári árið 2013 og lék með liðinu til ársins 2016, þegar hann endaði dvöl sína með liðinu á því að verða þýskur meistari. Næsti áfangastaður var Aalborg Håndbold þar sem hann lék í 1 ár undir stjórn Arons Kristjánssonar og varð hann annað árið í röð landsmeistari þegar Aalborg varð meistari vorið 2017. Sumarið 2017 samdi Stefán við ungverska stórliðið Pick Szeged og varð hann landsmeistari þriðja árið í röð þegar Pick Szeged varð meistari vorið 2018. Stefán lék með liðinu þar til núna um áramótin og við bættist bikarmeistaratitill árið 2019.

Stefán Rafn hefur leikið með Íslenska landsliðinu frá árinu 2012 og hefur hann farið á 5 stórmót með liðinu, seinast árið 2019 þegar hann lék á HM í Þýskalandi. Hann hefur leikið 72 landsleiki og skoraði í þeim 96 mörk.

Stefán hefur að mestu leiti verið frá vegna meiðsla síðasta árið en er á batavegi. Hann hafði þetta að segja um heimkomuna í Hauka: „Ég er mjög ánægður með þessa ákvörðun, en ég er búinn að vera að glíma við þrálát meiðsli síðustu ár og það gleður mig mikið að komast í góðar hendur hjá Ella sjúkraþjálfara og læknum hér á Íslandi. Núna þarf ég bara að halda áfram að leggja mikið á mig til að ná mér af meiðslunum. Þegar það er klárt hlakka ég mikið til að njóta þess að spila handbolta með mínu félagi. Haukar er og hefur alltaf verið hluti af mínu hjarta og kemur ekkert annað lið til greina heldur en það hérna á Íslandi fyrir mig.“

Aron Kristjánsson þjálfari fagnar komu Stefáns en hann sagði þetta við undirskriftina: „Það eru mikil gleðitíðindi fyrir okkur 

 

Haukamenn að fá Stefán aftur til baka til okkar. Stefán er uppalinn Haukamaður með sterkar taugar til félagsins. Hann hefur átt farsælan feril í atvinnumennskunni og leikið með sterkum liðum. Hann á eftir að nýtast liðinu mikið bæði innan vallar sem utan. Hann mun fá þann tíma sem hann  þarf til að ná sér af þeim meiðslum sem hafa verið að angra hann í töluverðan tíma.“