Púls tekinn á þjálfurum Hauka fyrir tvíhöfðann

Bæði lið Hauka í Iceland Express deildinni leika heimaleiki á sunnudaginn á Ásvöllum. Stelpurnar mæta liði Njarðvíkur sem situr sem stendur í 3. sæti með fjögur stig eða sæti ofar en Haukar sem einnig hafa fjögur stig.

Strákarnir mæta liði Grindavíkur sem hefur farið vel af stað það sem af er leiktíðar og kemur það í verk Hauka að stöðva þriggja leikja sigurgöngu þeirra. Grindavík er á toppi deildarinnar með sex stig en Haukar í því 4. með fjögur stig.

Heimasíðan heyrði í þeim Henning Henningssyni og Pétri Ingvarssyni þjálfurum liðanna og tók á þeim púls fyrir leikina tvo.

„Leikurinn á sunnudaginn verður afar áhugaverður.  Það skiptir ekki máli hvað liðið heitir eða hvar það er statt í deildinni því að öll lið sem eru með tvo útlendinga eru virkilega hættuleg lið“ sagði Henning um en Njarðvíkur liðið hefur tvo erlenda leikmenn innanborðs en eins og kunnugt er þá hafa Haukar leikið útlendingslausar síðan Ashlyn var leyst undan samningi.

„ Njarðvík er líka með helling af góðum íslenskum stelpum innanborðs þannig að þær eru með fínt lið en okkar verkefni er að vinna í okkar hlutum og einbeita okkur að því sem við gerum best“ bætti hann við og segir að stelpurnar séu staðráðnar í að bæta fyrir leikinn gegn Hamri í síðustu umferð þar sem þær máttu þola stórt tap.

„ Ef við náum að einbeita okkur að því sem við gerum best og leggjumst allar á eitt við að ná fram þeim áherslupunktum sem lagðir eru fram fyrir þennan leik, þá er ég viss um að við getum unnið Njarðvík.  Stelpurnar eru staðráðnar í að bæta fyrir slakan leik í Hveragerði um síðustu helgi.“

Pétur Ingvarsson segir að stuðningur á heimavelli komi til með að skipta miklu máli fyrir Hauka gegn liði eins og Grindavík.

„Grindavík er eina ósigraða liðið í deildinni og er gífurlega vel mannað. Það sýnir sig kannski best á því að Helgi (Björn Einarsson) sem lék með okkur á síðustu leiktíð og átti þátt í því að koma liðinu upp og varð íslandsmeistari með unglingaflokki fær lítið að spila hjá Grindavík“ sagði Pétur en Helgi ákvað einmitt að snúa í heimahaga fyrir þessa leiktíð eftir að hafa átt fínt mót með Haukum á síðustu leiktíð.

„Stuðningur úr stúkunni er mikilvægur liðinu og vonandi eiga leikmenn Hauka eftir að gefa þeim eitthvað fyrir peninginn í staðinn“ sagði Pétur Ingvarsson að lokum.

Leikirnir eru á sunnudaginn og hefst leikur stúlknanna kl. 17:00 og leikur strákanna kl. 19:15.    

Myndir: karfan.is – Tomasz