Öruggur sigur Hauka á Selfyssingum

Zlatko skoraði eitt og var valinn maður leiksins.

Zlatko skoraði eitt og var valinn maður leiksins.

Haukar unnu í gærkveldi 3-0 sigur á liði Selfoss í 19. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu. Björgvin Stefánsson sem hefur svo sannarlega verið á skotskónum í sumar og var valinn í U21 landsliðið í vikunni gerði tvö mark og Zlatko Krickic gerði eitt mark.

Það má segja að okkar strákar hafi klárað þennan leik í fyrri hálfleik þar sem liðið var talsvert betri aðilinn og komst yfir á 22 mínútu með marki frá Björgvin sem setti knöttinn í netið með hælnum eftir skalla frá Daníel Snorra Guðlaugssyni.

Með marki frá Zlatko, sem var valinn besti leikmaður Hauka eftir leikinn, á 45 mínútu fóru Haukar með þægilega forystu í leikhléið. Mjög góður fyrri hálfleikur og stuðningsfólk Hauka í virkilega góðu skapi í kaffinu hjá Haukum í horni.

Seinni hálfleikur var ekki mikið fyrir augað ef svo má að orði komast en okkar strákar sýndu festu í sínum leik og Björgvin bætti við þriðja markinu á 87 mínútu. Öruggur Hauka-sigur staðreynd og strákarnir komnir í fjórða sæti 1. deildar með 32 stig. Grindavík, með 30 stig, og Þór, með 29 stig, eiga leik til góða en leikurinn í kvöld var sá eini í 1. deildinni.

Þá er Björgvin orðinn markahæstur í deildinni með 17 mörk í 19 leikjum sem er frábær árangur.

Það hefur verið einstaklega ánægjulegt að fylgjast með okkar unga og efnilega Hauka liði í sumar. Áður hefur komið fram lágur meðalaldur leikmanna sem og að flestir eru uppaldir í Haukum. En hvernig liðið hefur vaxið með hverjum leik og sýnt góðan aga og skipulag ásamt því að spila skemmtlegan fótbolta er til fyrirmyndar.

Áfram Haukar!