Marques Oliver skrifar undir við Dominos lið Hauka

Marques Oliver hefur skrifað undir hjá deildarmeisturum Hauka og mun því spila með liðinu tímabilið 2018/2019.

Þetta eru gríðarlega jákvæðar fréttir fyrir Haukana þar sem Marques er þekkt stærð og hefur spilað bæði með Fjölni og svo með Þór Ak. á síðasta tímabili. Marques er gríðarlega sterkur leikmaður og spilar í stöðu 4,5 og mun því styrkja teiginn hjá deildarmeisturunum en þeir hafa orðið fyrir þó nokkurri blóðtöku fyrir komandi tímabil. En Finnur Atli fer með Helenu til Ungverjalands, Breki fer í skóla til USA og Emil Barja fór yfir til KR. Að auki eru allar líkur á því að Kári Jóns fari út í atvinnumennsku.

Marques var gríðarlega öflugur hjá liði Þórs Ak. í fyrra en hann meiddist í næst síðasta leik fyrir jól og spilaði lítið eftir það. Hann fór til að mynda mjög illa með Haukaliðið í fyrsta leik síðasta tímabils er hann skoraði 33 stig og tók 20 fráköst og sýndi stórkostleg tilþrif.
Marques var með 19,3 stig, 14,3 fráköst, 2,4 stoðsendingar og 27,1 framlagspunkt að meðaltali þangað til hann meiddist og er því ljóst að hann mun styrkja deildarmeistaran mikið á komandi tímabili.

Þrátt fyrir að Haukar hafi misst mjög mikilvæga leikmenn er bjartsýni í herbúðum Haukamanna og er liðið nokkuð vel skipað. Ljóst er þó að það er verið að byggja upp nokkuð nýtt lið og verður gaman að fylgjast með breyttu en efnilegu Haukaliði. Liðið er samt nokkuð sterkt og með ágætis breydd. Tveir erlendir leikmenn munu spila með liðinu og er búist við miklu af þeim báðum og ljóst er að ef þeir standa undir væntingum gætu Haukar orðið sterkir í vetur og nú er komið að leikmönnum eins og Hjálmari og Hauki að leiða liðið en auk þess er ljóst að Kristján Leifur mun fá enn stærra hlutverk og leikmenn eins og Hilmar Smári og Arnór Bjarki muni fá stærra hlutverk og verða að stíga upp og sýna hvers þeir eru megnugir. Að auki er Kiddi Marinós kominn heim og styrkir liðið gríðarlega.

Liðið er að næstu komið en mögulega gætu bæst 1-2 leikmenn við hópinn sem munu styrkja liðið í baráttunni og mun koma frétt um það um leið og það skýrist.