Knattspyrnufélagið Haukar fordæmir kynferðislegt ofbeldi í íþróttum.

Á aðalstjórnarfundi í Knattspyrnufélaginu Haukum sem haldinn var þann 23. janúar 2018 var eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða.
Knattspyrnufélagið Haukar fordæmir kynferðislegt ofbeldi í íþróttum og vísar þar meðal annars til þeirra miklu og þörfu umræðu sem hrundið var af stað undir merkjum #metoo. Knattspyrnufélagið Haukar telur mikilvægt að samræmt regluverk sé til staðar til að vinna úr erfiðum málum sem upp kunna að koma innan félagsins.
Þolendur kynferðislegs ofbeldis eiga að geta treyst því að mál þeirra fái faglega meðferð fagteymis til úrvinnslu mála sinna. Nú þegar hefur ÍSÍ – Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands tekið þessi mál föstum tökum og má þar m.a. vísa til bæklings ÍSÍ um kynferðislegt ofbeldi í íþróttum.
Knattspyrnufélagið Haukar vinnur frá degi til dags í nánu samstarfi við grunnskóla hér í nærsamfélaginu við úrvinnslu margvíslegra mála sem upp koma í okkar ágæta samfélagi. Með vísan til þess og þeirrar faglegu þekkingar sem til staðar er í skólasamfélaginu er það ósk Knattspyrnufélagsins Hauka að Hafnarfjarðarbær, í samvinnu við Íþróttabandalag Hafnarfjarðar og íþróttafélög innan vébanda þess, vinni að gerð viðbragðs- og aðgerðaráætlunar í viðkvæmum málaflokkum sem tengjast börnum og unglingum.
Knattspyrnufélagið Haukar