Haukar – Keflavík í kvöld kl. 19:15. Haukar geta komist áfram með sigri.

Í kvöld, föstudaginn 23. mars, koma Keflvíkingar í heimsókn í þriðja leik liðanna í 8 liða úrslitum Dominos deildar karla og hefst leikurinn kl. 19:15 í Schenkerhöllinni.

Deildarmeistarar Hauka leiða einvígið 2-0 og geta með sigri tryggt sig í undanúrslit Dominos deildarinnar.

Síðasti leikur, í Keflavík, fer í sögubækurnar fyrir ótrúlegan endir en Keflvíkingar leiddu nánast allan leikinn en Haukar voru samt aldrei langt á eftir. Í fjórða leikhluta náðu Keflvíkingar mest 15 stiga mun en Haukaliðið sýndi gríðarlega seiglu er þeir komu til baka og komust í fyrsta skiptið yfir með 3ja stiga körfu Kára Jóns er um 90 sek. voru eftir af leiknum. Keflvíkingur náðu samt aftur forystunni og leiddu með 3 stigum er um 15 sek. lifðu leiks. Kári Jóns fiskaði þá þrjú vitaskot er 3,7 sek voru eftir, skemmst er frá því að segja að Kári var ískaldur á línunni og setti öll þrjú vítin niður og svo stálu Haukarnir boltanum og setti Kári þá eina ótrúlegust körfu sem sést hefur, er hann setti niður skot frá sínum eigin vítateig. Yfir allan völlin og beint ofaní og glæsilegur Haukasigur raunin.

Nú þurfa Hafnfirðingar að fjölmenna á leikinn í kvöld og styðja þetta frábæra lið til sigurs. Strákarnir eru deildarmeistarar og eru komnir í 2-0 á móti sterku liði Keflvíkinga og þeir eiga stuðninginn skilið.

Mætum snemma, fáum okkur borgara og hvetjum liðið til sigurs.