Greining á samningum íþróttafélaga

Haukar logo fréttirNú í vikunni kom út skýrsla um greiningu samninga Hafnarfjarðarbæjar við íþróttafélög. Greiningin er að mati aðalstjórnar Hauka ágætlega unninn og gott verkfæri til að vinna að næstu verkefnum í uppbyggingu íþróttamannvirkja sem og að skapa grundvöll fyrir jafnræði og gegnsæi í stuðningi bæjarfélagsins til íþróttafélaga. Þá eru í greiningunni atriði sem nýtast munu Haukum til að bæta enn sitt starf.

Greiningin vekur fjölda spurninga um af því er virðist ójafna stöðu íþróttafélaga í bænum, spurninga sem við Haukar þurfum að fá svör við hjá stjórnendum Hafnarfjarðarbæjar nú á næstu vikum. Þá má ráða af greiningunni að Hafnarfjörður hefur dregist langt aftur úr nágrannasveitarfélögunum hvað stuðning við íþróttastarf áhrærir. Þannig er framlag Garðabæjar til íþróttaiðkunnar samkvæmt greiningunni nærri tvöfalt hærra á hvern íbúa heldur en í Hafnarfirði. Þá vekur athygli hvað styrkir Hafnarfjarðarbær til íþróttaiðkunnar hafa dregist langt aftur úr styrkjum nágranna sveitarfélaga til íþróttaiðkunnar.

Tillögur að breyttum samningum milli íþróttafélaga og Hafnarfjarðar eru athyglisverðar leiði þær til þess að stuðningur við íþróttafélög verði hækkaður frá því sem nú er þannig að hann nálgist a.m.k framlög nágrannasveitarfélaganna til íþrótta.

Þá er augljóst eftir lestur greiningarinnar á fjárframlögum til uppbyggingar íþróttamannvirkja hér í bænum að nú hlýtur að vera komið að uppbyggingu á Ásvöllum. Með byggingu á nýjum íþróttasal við Ásvelli sem verið hefur í undirbúningi frá árinu 2006 sem og að reisa æfingahúsnæðið fyrir knattspyrnu í ljósi þeirrar myndarlegu uppbyggingu sem verið hefur hjá nágrönnum okkar síðustu ár. Framkvæmdaáætlun Hauka til næstu 3ára liggur fyrir ásamt að verulegur stuðningur velunnara og stuðningsfyrirtækja Hauka hefur verið tryggður fyrir uppbyggingu á Ásvöllum.

Um leið og Haukar þakka núverandi meirihluta í bæjarstjórn og bæjarstjóra fyrir skýrsluna þá skora Haukar á Hafnarfjarðarbæ að taka nú til hendinni og hefji löngu tímabæra uppbyggingu íþróttamannvirkja að Ásvöllum.

Aðalstjórn Hauka
Samúel Guðmundsson Formaður
Þorvarður Tjörvi Ólafsson Varaformaður