Búi ráðinn þjálfari meistaraflokks karla í fótbolta

Knattspyrnudeild Hauka hefur skrifað undir tveggja ára samning við Búa Vilhjálm Guðmundsson þess efnis að hann verði þjálfari meistaraflokks karla. Hafþór Þrastarson verður aðstoðarþjálfari en hann hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna vegna meiðsla. Þá verður Hilmar Rafn Emilsson, fyrrum leikmaður Hauka, í þjálfarateyminu.

Búi tók við liðinu eftir að Kristján Ómar Björnsson hætti með liðið í lok maí en hann var viðloðandi liðið allt undirbúningstímabilið auk þess sem hann hefur verið þjálfari Knattspyrnufélags Ásvalla, KÁ, sem er varalið Hauka. Þórarinn Jónas Ásgeirsson er nýr þjálfari KÁ.

Búi hefur nú þegar stýrt liðinu til sigurs í tveimur leikjum, m.a. í 1-5 útisigri gegn Njarðvík í vikunni.

Jón Erlendsson, formaður meistaraflokksráðs karla, segir að stjórn knattspyrnudeildar Hauka bindi miklar vonir við Búa. ,,Við höfum haft mikla trú á Búa sem þjálfara síðan hann kom til félagsins. Hann var strax tilbúinn að taka þessari nýju áskorun og við höfum fulla trúi á að hann eigi eftir að sinna þessu verkefni af miklum sóma.“

Jón Erlendsson, form. meistaraflokksráðs karla, og Búi Vilhjálmur við undirskrift í dag á Ásvöllum.

Ljósm. Hulda Margrét