Arnar Númi og Óliver Steinar léku með U19 landsliðinu

Arnar Númi Gíslason og Óliver Steinar Guðmundsson, sem báðir eru uppaldir í Haukum, léku tvo leiki með U19 drengjalandsliðinu í síðustu viku.

Liðið spilaði tvo æfingaleiki í Svíþjóð, gegn Noregi og síðan gegn heimamönnum.

Strákarnir unnu stórkostlegan 3-1 sigur gegn Noregi síðasta miðvikudag þar sem Arnar Númi byrjaði, spilaði allan tímann og átti góða stoðsendingu í þriðja og síðasta marki Íslands. Óliver Steinar, sem er núna á mála hjá Atalanta á Ítalíu, kom inn á sem varamaður á 79. mínútu í leiknum.

Gegn Svíþjóð var niðurstaðan 2-1 tap en þar byrjaði Óliver Steinar og lék tæpan klukkutíma. Arnar Númi kom inn á er rúmar 20 mínútur voru eftir.

Strákarnir, sem eru fæddir árið 2004, léku upp yngri flokkana með Haukum. Þeir hafa lagt mikið á sig til að komast á þann stað að leika með yngri landsliðum Íslands. Við hjá Haukum erum stolt af þeirra árangri.

Með því að smella hérna er hægt að sjá flotta stoðsendingu sem Arnar Númi átti í leiknum gegn Noregi og meðfylgjandi er mynd af strákunum sem Hulda Margrét, ljósmyndari, tók.

Arnar Númi og Óliver Steinar.