Óskar Ármannsson mun stýra kvennaliði Hauka á næsta tímabili

ÓskarinnHandknattleiksdeild Hauka réð í dag Haukamanninn, Óskar Ármannsson sem næsta þjálfara kvennaliðs deildarinnar. Þetta var tilkynnt í hádeginu í dag á blaðamannafundi sem Handknattleiks deildin hélt í Schenkerhöllinni.

Óskar er öllum hnútum kunnugur hjá Haukum og hefur starfað sem þjálfari hjá deildinni frá 1998 með góðum árangri. Óskar hefur að mestu verið aðstoðarþjálfari mfl. kk. síðustu ár og hefur þar verið í stóru hlutverki hjá bæði Aroni og Patreki.

Hið unga kvennalið Hauka hefur verið að styrkjast mikið á síðustu tveim árum og náði góðum árangri í vetur en datt út í 8 liða úrslitum á móti ÍBV en mikil meiðsli herjuðu á liðið undir lok deildarkeppninnar.

Óskari er falið það verkefni að fá kvennaliðið til að stíga næstu skref, það er að keppa um alla þá titla sem í boði eru. Óskar hefur gríðarlega reynslu sem þjálfari og með reynslu sinni mun hann hjálpa hinu unga liði Hauka að stíga næstu skref.