Patrekur Jóhannesson tekur við karlaliði Hauka

Patrekur Jóhannesson þjálfar karlalið Hauka næstu árin

Á blaðamannafundi á Ásvöllum nú í hádeginu var tilkynnt um formlega að Patrekur Jóhannesson verður nýr þjálfari þjálfara karlaliðs Hauka í handbolta frá og með 1. júní nk.  

Eins og öllum er kunnugt mun núverandi þjálfari Hauka, Aron Kristjánsson láta af störfum næsta vor til þess að einbeita sér að fullu að starfi sínu sem landsliðsþjálfari Íslands í handbolta. Aron hefur náð frábærum árangri sem þjálfari Hauka á undanförnum árum og er mikil eftir sjá í honum, en jafnframt ríkir mikil tilhlökkun innan raða Hauka með að fá Patrek til starfa og væntir félagið mikils af honum.

Patrekur mun samhliða þjálfun meistaraflokks karla hjá Haukum, starfa við þjálfun ungs afreksfólks hjá félaginu. Einnig gegnir Patrekur stöðu landsliðsþjálfara Austurríkis og mun halda því starfi áfram samhliða störfum hjá Haukum, en hjá báðum aðilum er hann með samning til ársins 2015.

Patrekur lýsti því yfir á blaðamannafundinum að hann hlakki mikið til samstarfsins við Hauka og telur það mikinn kost að geta einbeitt sér einvörðungu að þjálfun.