Valur – Haukar í kvöld, hvað segir fyrirliðinn ?

Í kvöld leikur meistaraflokkur karla í handknattleik annan leik sinn í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn en leikurinn hefst klukkan 19:30. En það eru Haukar og Valur sem eigast við í úrslitum og fer leikurinn fram í Vodafone-höllinni að Hlíðarenda.

 

Við fengum fyrirliða Hauka, Arnar Pétursson til að svara nokkrum vel útvöldum spurningum. Áður en við ið gefum fyrirliðanum og Eyjapeyjanum orðið vill heimasíðan minna Haukafólk á að rútuferðir verða á leikinn og fara þær tæplega klukkutíma fyrir leik frá Ásvöllum eða 18:30.

 

 

Nú eru þið komnir yfir í viðureigninni, 1-0. Hvernig fannst þér leikurinn vera í fyrradag ?

Fyrsti leikurinn var bara nokkuð góður miðað við allt og allt. Mikil spenna, barátta og ákefð sem er eðlilegt þegar svona mikið er undir. Svona verður þetta út þessa keppni.

 

Nú hafa Valsmenn verið ósigrandi í Vodafone-höllinni í vetur og þeir þurfa lítið annað en sigur, er það ekki bara meiri áskorun fyrir ykkur að sigra þennan leik og vera því fyrsta liðið til að sigra í Vodafone-höllinni og geta því tryggt ykkur Íslandsmeistaratitilinn á heimavelli í þriðja leik ?

Jú það er mikil áskorun að klára leikinn í kvöld og eiga möguleika á því að landa þeim stóra á okkar heimavelli, fyrir framan okkar frábæru stuðningsmenn. En við erum raunsæir og gerum okkur grein fyrir því að ef við ætlum að sigra að Hlíðarenda þá þurfum við toppleik. Það er virðingarvert hversu öfluga gryfju þeim hefur tekist að búa til að Hlíðarenda og þekkjum við Haukamenn það ágætlega að lenda í vel stemmdu Valsliði þar. Það gerðist einu sinni fyrir áramót, á milli evrópuleikja og fimm dögum eftir hrun íslensku bankanna, og gerist ekki aftur.   

 

Nú fer Einar Örn Jónsson í leikbann vegna rauða spjaldsins sem hann fékk að líta í gær, mun það bitna mikið á liðinu að hann verði ekki með ?

Nei það skiptir engu máli, hann hefði alveg mátt fá þrjá leiki í bann mín vegna! Nei nei það er mjög slæmt að missa Einar. Hann er mjög traustur og mikilvægur hlekkur í okkur leik, bæði í vörn og sókn. Að auki er hann góður drengur og hokinn af reynslu sem hefði verið gott að hafa í leiknum í kvöld.

 

Það var gríðarlega fjölmennt Haukamegin á vellinum í gær, og voru stuðningsmenn Hauka meira en helmingi fleiri en Valsmanna, ertu ánægður með mætinguna hjá stuðningsmönnum Hauka heilt yfir í vetur ?

Já ég er mjög sáttur. Þetta hefur verið langur og strangur vetur með mörgum leikjum en við getum samt alltaf stólað á okkar fólk. Við eigum einstaka stuðningsmenn sem svo oft hafa fleytt okkur yfir erfiða hjalla.

 

Nú bendir allt til þess að þetta verði þitt síðasta tímabil fyrir Hauka, hvað er Arnar Pétursson að fara gera, kveikir það ekki líka miklu meira í þér að vilja enda ferilinn með Haukum með deildar og Íslandsmeistaratitli ?

Það er ekki nokkur spurning, ég ætla mér að kveðja þennan frábæra klúbb með tveimur titlum. Eftir þrettán ára útlegð skal haldið heim á eyjuna fögru í sól og sumaryl. Fer úr bankafjörinu í borginni beint í aðgerð hjá Vinnslustöðinni.  

 

Nú er oft sagt að Haukaliðið sem hálfgert ÍBV-B, hefur þú einhverja ástæðu afhverju Eyjamenn hafa verið svona margir sem hafa spilað með Haukum að undanförnu ?

Einfalt svar. Við sem höfum spilað með Haukum undanfarin ár fengum mjög gott uppeldi hjá ÍBV. Liðið, stjórnin, stuðningsmenn, umgjörðin og stemmingin var frábær og þegar maður hefur upplifað þvíumlíkt einu sinni vill maður upplifa það aftur og aftur. Er við fluttum upp á land í nám þá leituðum við víða, og sumir meira að segja út fyrir landsteinanna í nokkur ár, en hvergi fundum við þessa sömu stemmingu fyrr en við komum í Hauka. Hjá Haukum er umgjörðin einstök. Ofan á allt það sem ég taldi upp áðan þá bætast við Haukar í horni, sem er einstakur félagsskapur sem lyftir klúbbnum á annað level en þekkist hér á landi, og titlar sem menn einfaldlega læra að vinna í liði eins og Haukum.  Það eru forréttindi fyrir hvern íþróttamann að spila með Haukum.