Sæunn Björnsdóttir spilar með Fylki – Framlengir samning við Hauka

Sæunn Björnsdóttir, leikmaður Hauka, mun spila með Fylki í Pepsí Max deild kvenna á komandi tímabili en Sæunn, Haukar og Fylkir hafa gert með sér samkomulag þess efnis. Haukar munu þannig lána Sæunni til Fylkis en um leið hefur Sæunn framlengt samning sinn við Hauka.

Sæunn, sem er 19 ára gömul, hefur spilað 98 leiki fyrir meistaraflokk Hauka og skorað 15 mörk en hún spilar sem miðjumaður. Þá á hún að baki tvo leiki fyrir U19 ára landslið Íslands.

Sæunn hefur verið mikilvægur hlekkur í liði Hauka frá því hún spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik 14 ára gömul. Hún hefur verið valin í úrvalslið 1. deildar tvö ár í röð, 2019 og 2020, og þá var hún valin efnilegasti leikmaður Hauka 2016-2017 og knattspyrnukona Hauka 2018 og 2019.

Markmið Hauka er að meistaraflokkur kvenna spili í efstu deild þar sem byggt er á uppöldum leikmönnum. En þar sem Haukar spila ekki í efstu deild á komandi tímabili vill félagið tryggja áframhaldandi hagsmuni Sæunnar þar sem hún fær tækifæri til að spila í deild þeirra bestu hér á landi.

Stjórn knattspyrnudeildar Hauka fagnar framlengingu á samningi við Sæunni og það er mikið gleðiefni þegar leikmenn veita sínu uppeldisfélagi tryggð eins og Sæunn gerir með nýjum samningi. Knattspyrnudeild Hauka óskar Sæunni alls hins besta með Fylki á komandi tímabili og þakkar Fylki fyrir gott samstarf varðandi þetta fyrirkomulag.

Þess má til gamans geta að Sæunn spilaði með 3. flokki Fylkis á Rey Cup mótinu þegar liðið lék til úrslita við Liverpool.

Sæunn Björnsdóttir
Ljósm. Hafliði Breiðfjörð