Nú byggjum við knatthús. Til hamingju Haukar!

Í dag, 29. nóvember, var undirritaður samningur á milli Hafnarfjarðarbæjar og ÍAV um byggingu knatthúss að Ásvöllum. Haukar hafa lengi beðið eftir bættri aðstöðu til knattspyrnuiðkunar og með tilkomu glæsilegs knatthúss sjáum við drauma okkar verða að veruleika. Unnið hefur verið að hönnun knatthússins allt frá árinu 2018 samhliða því sem unnið var að ítarlegu mati á umhverfisáhrifum knatthússins, eins og gerð var krafa um.
Á næstu dögum munu starfsmenn ÍAV hefja undirbúning að framkvæmdum, en að tveimur árum liðnum er gert ráð fyrir að taka knatthúsið í notkun.
Um leið og við fögnum byggingu glæsilegs knatthúss viljum við færa bæjarstjórn Hafnarfjarðar þakkir fyrir stórhug í uppbyggingu íþróttamannvirkja og erum sannfærð um að knatthús Hauka að Ásvöllum muni enn auka hróður Hafnarfjarðarbæjar sem leiðandi sveitarfélag í uppbyggingu íþróttamannvirkja, bæjarbúum til heilla.
Áfram Haukar!