Góð fótboltahelgi að baki hjá meistaraflokkum Hauka

HaukarEkkert vantaði upp á að nóg væri að gera á Schenkervellinum um helgina en meistaraflokkar Hauka léku þar samtals þrjá leiki.

Það voru strákarnir sem riðu á vaðið og léku gegn Tindastól á föstudagskvöld í leik sem liður er í Fotbolta.net mótinu. Í stuttu máli sagt unnu Haukar 1-0 með marki frá Brynjari Benediktssyni í fyrri hálfleik. Haukar voru töluvert sterkari aðilinn í leiknum og hefðu getað skorað fleiri mörk en Tindastóll leikur 1.deild rétt eins og Haukar.

Daginn eftir mættu strákarnir ÍBV í æfingaleik, ÍBV var mest megnis skipað ungum strákum úr 2.flokki og reyndist Haukaliðið þeim of stór biti en leikar enduðu 6-1 fyrir Hauka. Í báðum þessum leikjum fengu flest allir í leikmannahópi Hauka að spreyta sig auk nokkurra stráka úr 2.flokki. Þetta var því svo sannarlega kærkomið tækifæri fyrir leikmenn til að erfiða þeim Ólafi Jóhannessyni, þjálfara og Sigurbirni Erni Hreiðarssyni, aðstoðarþjálfara, starfið við að velja sitt sterkasta lið í sumar.

Síðar á laugardeginum mættu stelpurnar liði Keflavíkur í Faxaflóamóti meistaraflokks kvenna. Þrátt fyrir að nokkrir leikmenn væru fjarverandi var sigur Hauka aldrei í hættu og lyktaði leiknum með 4-0 sigri Hauka. Fyrirliðinn Sara Rakel S. Hinriksdóttir fór fyrir sínu liði og skoraði tvö mörk, auk þess að leggja upp eitt. Nýr leikmaður sem kemur frá Stjörnunni, Eydís Lilja Eysteinsdóttir skoraði hin tvö mörk Hauka í leiknum og spilaði mjög vel. Bæði þessi lið leika í 1. deild kvenna næsta sumar.