Haukar mæta Valsmönnum í 1. deild karla á morgun föstudag en nokkuð langt er síðan Haukar unnu síðast á Hlíðarenda. Haukar gerðu góða ferð í Borgarnes síðastliðinn föstudag og tilltu sér á topp deildarinnar með 40 stiga sigri á Skallagrími á meðan Valur situr í 4 sæti deildarinnar fjórum stigum á eftir Haukum.
Valsmenn hafa verið á góðu róli síðan Byron Davis gekk til liðs við þá og hafa nú unnið síðustu sex leiki með hann innanborðs. Byron hefur skorað 19,8 stig að meðaltali tekið 5 fráköst og er með rúm 20 stig í framlag. Það má segja að Yngvi Gunnlaugsson fyrrum Haukamaður og núverandi þjálfari Valsmanna hafi gert gott mót þegar hann fékk Davis til liðs við sig en hann er að sögn Péturs Ingvarssonar, þjálfara Hauka, besti alhliða leikmaður deildarinnar. Davis spilaði fyrir Sigga Ingimundar hjá Solna, Svíþjóð, áður en hann kom til liðs við Valsmenn.
Eins og fyrr segir er langt um liðið síðan Haukar unnu síðast á Hlíðarenda en Haukar hafa ekki sigrað þar leik síðan 1998. Það má til gamans geta að tveir sem tengjast liðinu í dag léku í þessum sigurleik en það eru þeir Pétur Ingvarsson, þjálfari, og Ingvar Guðjónsson sem leikur með liðinu. Pétur gerði 12 stig í leiknum en hinn 19 ára gamli Ingvar var með 20 stig.
Með sigri komast Haukar skrefinu nær IE-deildinni. Mætum og hvetjum strákana til sigurs.