Handknattleiksdeild Hauka og IK Sävehof ásamt Elínu Klöru Þorkelsdóttur hafa komist að samkomulagi um að Elín Klara gangi til liðs við IK Sävehof núna í sumar.
Elín Klara lék sína fyrstu meistaraflokksleiki fyrir Hauka í febrúar 2020 þá 15 ára að aldri. Tímabilið eftir varð hún stór hluti af liðinu og síðan var ekki aftur snúið og hefur Elín Klara verið valin besti leikmaður deildarinnar undanfarin 2 tímabil. Uppgangur hennar hefur verið samofin uppgangi Haukaliðsins sem um síðustu helgi vann bikarmeistaratitilinn í fyrsta skiptið síðan 2007.
Elín er einnig orðin lykilmaður í íslenska A landsliðinu og fór hún á sitt fyrsta stórmót í desember síðastliðin. Síðastliðið sumar fór Elín í sitt síðasta verkefni með yngri landsliðum Íslands og var hún valin besti miðjumaður á HM U20.
Það verður söknuður af Elínu Klöru á Ásvöllum en einnig tilhlökkun að sjá hana spreyta sig á nýjum vígstöðum. Einnig er það heiður fyrir Hauka að senda enn einn leikmanninn úr sínu starfi í atvinnumennsku.
Áfram Haukar!