Knattspyrnufélag Haukar hefur gert samkomulag við Báru Fanneyju Hálfdanardóttur, sálfræðing, um að veita iðkendum félagsins aðgang að sálfræðiviðtölum í fundaraðstöðu félagsins á Ásvöllum. Markmið þessa samstarfs er að styðja við andlega heilsu íþróttafólks með því að bjóða upp á þjónustu sálfræðings með sérþekkingu á íþróttasálfræði í þeirra nærumhverfi.
Bára Fanney útskrifaðist með meistaragráðu í klínískri sálfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2018 og hefur síðan starfað við greiningar og ráðgjöf fyrir foreldra og skóla, auk þess að sinna meðferðarvinnu. Í júní 2025 lauk hún 30 eininga námi í íþróttasálfræði við HR.
Með yfir 20 ára reynslu í þjálfun og sem fyrrum íþróttakona hefur Bára haldið fjölda fyrirlestra um andlega heilsu í íþróttum fyrir íþróttafólk, foreldra og þjálfara, auk þess að vinna með íþróttafólki í einstaklingsviðtölum.
Viðtöl verða í boði aðra hverja helgi í fundarherbergi Hauka á Ásvöllum. Kostnaður fyrir 50 mín viðtal er 18.000 kr. Foreldrar og iðkendur sem hafa áhuga á viðtali geta haft samband við Báru Fanneyju í gegnum netfangið barafanneysalf@gmail.com