Haukar spila við North Dakota í Róm í dag kl. 16:30 að Íslenskum tíma. North Dakota er aðeins lakari skóli en lið Marquette sem spilað var gegn í gær og því ætla menn að ná í sigur í kvöld. Dakota er með nokkuð stórt lið og því verður örugglega mikil barátta í kringum teiginn.
Frægasti leikmaður North Dakota er þjálfarinn frægi Phil Jacksson sem þjálfaði lið Lakers og Chicago og varð meistari með New York, en það eru nokkuð mörg ár síðan það lið gat eitthvað í körfu.
Leikurinn í gær var hörku leikur og þrátt fyrir 7 stiga tap spiluðu strákarnir mjög vel um 95% af leiknum. Mikill hiti var í húsinu og rakinn mikill og voru allir orðnir rennandi blautir strax í upphitun, en rakinn var svo mikill að Kristján Leifur var kominn með rúsínu putta strax í hálfleik.
Strákarnir spiluðu sterka vörn og sóknin gekk ágætlega, þrátt fyrir að þetta væri fyrsti leikur liðsins fyrir komandi tímabil og nýjir leikmenn voru að stíga sín fyrstu spor í Haukaliðinu, Stephen Madison og Finnur Magnússon.
Haukaliðið hélt forystu eiginlega allan leikinn, en leikurinn var mjög jafn og mikil barátta var í báðum liðum. Haukar náður um 10 stiga forystu í fjórða leikhlutanum en náðu ekki að halda út í hitanum og gerðu nokkur afdrifarík mistök í lokin sem kostaði sigurinn.
Leikurinn samt nokkuð góður og gefur góð fyrirheit fyrir tímabilið.
Tveir leikmenn spiluðu sinn fyrsta leik fyrir félagið eins og áður hefur komið fram og stóðu þeir sig báðir mjög vel og ljóst að þeir styrkja liðið mikið fyrir komandi átök. Allt Haukaliðið spilaði vel og lögðu sig fram í leiknum.
Kári Jónsson er meiddur og spilaði ekki leikinn og ólíklegt er að hann spili með í þessu móti. Hann meiddist á hné með u18 ára liðinu rétt fyrir æfingferðina en hann er með tognað fremra krossband og mar undir hnéskel. Því er engin áhætta tekin með þennan efnilega leikmann en hann er á fullu í skotæfingum og að vinna í því að styrkja hnéið.
Leikurinn í kvöld er því miður ekki sýndur beint á netinu en til marks um stærð þessara skóla sem við erum að spila við hér úti er að Marquette er með um 70 manns hér í ferðinni. Það er ótrúlegt að horfa á þetta þar sem þeir eru með einn aðalþjálfara, þrjá yfirþjálfara og svo fjóra aðra þjálfara sem eru á fullu að vinna með liðinu. Auk þess eru styrktarþjálfarar, lækna- og sjúkraþjálfarateymi og það voru um 15 manns á bekknum hjá þeim, fyrir utan leikmenn. En mikla athygli vöktu þrír aðstoðarmenn sem voru á handklæðum og hlupu inná völlinn í hvert skipti sem bleyta koma á völlinn og voru ótrúlega fljótir að þurka gólfið.
Skólinn er það öflugur að þeir komu með sitt eigið sjónvarpsteymi sem sendi út og voru með ljósmyndara og lýsendur sem fylgja liðinu alla ferðina. Ótrúlega flott programm og ljóst að það vantar ekki peninga hjá þessum skóla.
Mikil spenna er í hópnum fyrir leikinn á móti Georgetown á sunnudaginn en Patrick „nokkur“ Ewing er skráður með í ferðina. Það væri frábært ef hann væri á bekknum og spurningum hvort menn taki þá ekki upp myndavélina.
Fylgist með ferðinni á snapchat á #haukarnation.