Haukar-Magdeburg

Strákarnir fylgdu eftir stórglæsilegri innkomu með magnaðri spilamennsku sem dugði næstum til að vinna eitt af sterkustu handknattleiksliðum heims. Leikurinn við þýska liðið SC-Magdeburg var hin mesta skemmtun frá byrjun til enda og rúmlega það. Strákarnir heldu í þýsku meistarana allan fyrri hálfleikinn og var staðan í hálfleik 18-19 þeim þýsku í vil.

Seinni hálfleikurinn var ekki ósvipaður þeim fyrri, þjóðverjar með forystuna lengst af með þann magnaða leikmann Stefan Kretzchmar í fararbroddi, sem steig varla feilspor. Um miðjan hálfleikinn náðu strákarnir að kreista meira út og hreinlega blómstruðu með dyggum stuðningi áhorfenda, sem sátu þétt á pöllunum að Ásvöllum. Í kjölfarið komu mörk í alls kyns litum og komust þeir yfir 30-29 þegar um 10mín voru eftir. Þýska stálið sá hinsvegar við okkur með smá hjálp kannski og náðu aftur yfirhöndinni og endaði leikurinn 34-37. Þriggja marka tap staðreynd gegn þessu sterka liði en fúlt samt sem áður að ná ekki stigi eða tveim. Ekki ósvipað og í landsleiknum hér um daginn…

Næst er það ferðin til Barcelona. Magdeburg tók þá í síðasta leik, er þá ekki bara málið að vinna á Spáni með dyggum stuðningi 170 Haukamanna og kvenna… 😉

Haukar-Magdeburg

Handboltaveislan heldur áfram. Sunnudaginn 16. nóvember kl. 20.00 spila Haukar við stórliðið Magdeburg með Íslendingana Alfreð Gíslason og Sigfús Sigurðsson í broddi fylkingar. Þetta er síðari leikur Hauka gegn Magdeburg í B-riðli Meistaradeildarinnar og verður allt lagt undir til að leggja þá að velli. Magdeburg er eitt besta félagslið Evrópu og er með stjörnur í öllum stöðum. Þessi leikur verður gríðarlega erfiður fyrir strákana okkar en munum að með öflugum stuðningi áhorfenda er allt hægt og við eigum góða stuðningsmenn.

Allir Haukar mæta að sjálfsögðu á leikinn, brosa og skemmta sér og taka þátt í leiknum af líf og sál. Við hvetjum alla aðra til að mæta með okkur á Ásvelli því enginn má missa af þessum heimsklassahandbolta.

Leikurinn hefst eins og áður segir kl. 20.00 á Ásvöllum og hvetjum við fólk til að mæta snemma og koma sér vel fyrir í pöllunum áður en stuðið byrjar. Glæsileg skemmtun verður fyrir leikinn. Óvænt uppákoma á gólfinu, en ekki er hægt að kynna hana nánar hér. Ljósashowið og kynning leikmanna verður magnaðra en nokkru sinni fyrr. Þá mætir Karlakórinn Þrestir að venju og syngur af sinni alkunnu snilld.

Andlitsmálun verður í forsala veislusalarins frá kl. 18.00. Það eru stelpurnar okkar í mfl.kvenna sem sjá um að mála áhorfendur.

Forsala miða verður í Firði, Hafnarfirði föstudag kl. 16.00-19.00 og laugardag kl. 11.00-16.00 og verða leikmenn meistaraflokks karla við miðasöluna. Á sunnudag er miðasala á Ásvöllum frá kl. 17.00. Miðaverð er kr. 1.000 fyrir fullorðna og kr. 300 fyrir börn 6 til 14 ára.

Allir á Ásvelli á sunnudaginn. ÁFRAM HAUKAR

Kíkið á heimasíðu {Tengill_16}