Haukar unnu glæsilegan sigur á Valsmönnum í úrslitaleik Eimskipsbikar karla um helgina 23-15. Haukar eru því ríkjandi Íslandsmeistarar, bikarmeistarar, deildarmeistarar og deildarbikarmeistarar! Frábær árangur hjá strákunum. Þetta var fyrsti bikarmeistaratitill Hauka í karlaflokki frá árinu 2002 og því um langþráðan titil að ræða. Birkir Ívar Guðmundsson var maður leiksins en hann varði 24 skot og hélt Valsmönnum í heljargreipum eins og markafjöldinn ber með sér. Guðmundur Árni Ólafsson átti stórleik og var markahæstur með 7 mörk. Varnarleikurinn var í fyrirrúmi hjá báðum liðum enda markaskorið lágt og meira í takt við úrslit handboltaleikja á níunda áratug síðustu aldar.
Leikmenn beggja liða virtust mæta nokkuð taugaspenntir til leiks en um leið reiðubúnir að berjast eins og ljón í vörninni. Eftir 15 mín leik var staðan 4-2 fyrir Hauka og í hálfleik höfðu Haukar eins marka forystu 9-8. Áfram var jafnræði með liðunum þar til staðan var 14-14 en þá breyttu Haukar um vörn, fóru í 6:0 og náðu frábærum kafla síðustu 10-15 mín sem þeir unnu 9-1 og lokatölur 23-15 eins og áður segir. Valsmenn lentu á vegg á þessum kafla sem fólst í sterkri vörn og frábærri markvörslu Birkis Ívars.
Að leik loknum hélt Haukafólk í Fjörðinn þar sem beðið var eftir liðinu. Stuttu eftir að leikmenn komu í hús var tilkynnt að bikarinn ásamt nokkrum leikmönnum væri á leiðinni í þyrlu! Þetta framtak hefur vakið mikla athygli en það var Tæki.is sem stóð fyrir þessu frábæra framtaki. Og eins og við var að búast var gleðið fram á rauða nótt á Ásvöllum.
Umgjörðin í kringum leikinn var frábær. Áhorfendabekkirnir þéttsettnir, Haukafólk í hvítu og Haukabandið í pöllunum stjórnaði stemmningunni. Haukar þakka styrktaraðilum og áhorfendum fyriir stuðninginn og Val og Fram auk HSÍ fyrir samstarfið í kringum leikina.