Gleðilegt sumar!

Kæra Haukafólk. Við óskum ykkur öllum gleðilegs sumars með þökk fyrir veturinn. Félagið okkar fagnaði 90 ára afmæli þann 12. apríl sl. með skóflustungu að nýju knatthúsi sem mun rísa hér á Ásvöllum innan tveggja til þriggja ára. Öll uppbygging mannvirkja hér á Ásvöllum hefur verið bæjarfélaginu til sérstaks sóma og vert að þakka öllum fulltrúum í bæjarstjórn fyrir hversu vel hefur verið að þeirri uppbyggingu staðið. Samskipti við kjörna fulltrúa okkar í bæjarstjórn hafa í gengum tíðina verið einstaklega ánægjuleg sem og samskipti við starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar.
Seint verður dregið í efa það þýðingarmikla starf sem íþróttafélögin í landinu sinna. Við sem dag hvern fylgjumst með ungum sem öldnum hér við iðkun íþrótta eða annað félagsstarf á Ásvöllum gleðjumst yfir að fá að starfa í mannbætandi uppeldisstarfi.
Nú er sumarið framundan og veiran vonandi á undanhaldi með aukinni bólusetningu landsmanna. Það er því líklegt að við sjáum fram á að íþróttaiðkun færist í eðlilegt horf innan tíðar.  Horfum björtum augum til sumarins, njótum þess að vera til og verum góð hvert við annað.

Áfram Haukar.